Bíó og sjónvarp

Danskur stórleikari er höfuðpaur Banditos í Pressu

Freyr Gígja Gunnarsson skrifar
Bjarne Henriksen, þekktastur fyrir sjónvarpsþættina Forbrydelsen, verður höfuðpaur Banditos-vélhjólaklíkunnar í sjónvarpsþáttunum Pressu 2 sem Óskar Jónasson leikstýrir. Óskar kveðst ákaflega sáttur með að hafa klófest Bjarne, þar sé vanur maður á ferð.
Bjarne Henriksen, þekktastur fyrir sjónvarpsþættina Forbrydelsen, verður höfuðpaur Banditos-vélhjólaklíkunnar í sjónvarpsþáttunum Pressu 2 sem Óskar Jónasson leikstýrir. Óskar kveðst ákaflega sáttur með að hafa klófest Bjarne, þar sé vanur maður á ferð.
„Hann er pottþéttur og hefur alveg gríðarlega sterka nærveru,“ segir Óskar Jónasson, leikstjóri sjónvarpsþáttaraðarinnar Pressu 2.

Danski leikarinn Bjarne Henriksen leikur stórt hlutverk í þáttunum sem eru sjálfstætt framhald af Pressu. Henriksen hefur leikið í fjöldanum öllum af dönskum kvikmyndum, meðal annars hinni margverðlaunuðu Festen eftir Thomas Winterberg og þá hefur hann leikið í sjónvarpsþáttaröðum á borð við Rejseholdet og Nikolaj og Juliu auk Krónikunnar sem allar hafa verið sýndar á RÚV.

Þekktastur er hann sennilega fyrir leik sinn í spennuþáttaröðinni Forbrydelsen eða Glæpnum. Fyrsta þáttaröðin sló eftirminnilega í gegn fyrir fjórum árum en Bjarne lék föður hinnar myrtu stúlku.

Óskar kveðst feikilega ánægður með að hafa klófest Bjarne, þar sé vanur maður á ferð.

„Það var nú bara þannig að við létum hugann reika og pældum lengi og vel í því hvaða danski leikari væri svona mótorhjólagengislegur, maður hugsaði hver væri líklegur til að vera svona tuddi því þeir eru yfirleitt svolítið sverir og loðnir.“

Það er vel hægt að kvitta upp á það að Henriksen falli vel að þessari lýsingu Óskars sem um leið upplýsir að eitt aðalmálanna í Pressu snúi einmitt að meintri útrás skandinavískra mótorhjólagengja til Íslands. Bjarne á nefnilega að leika höfuðpaurinn í vélhjólaklíkunni Banditos sem sleppur í gegnum vegabréfaeftirlitið og kemst í samband við sambærilega klíku á Íslandi.

Sara Dögg Ásgeirsdóttir verður aftur í hlutverk Láru, blaðakonunnar ráðagóðu, auk þess sem þeir Kjartan Guðjónsson og Þorsteinn Bachmann verða á sínum stað. Þá mun Gísli Örn Garðarsson leika forstjóra olíufyrirtækis með sérkennilegt áhugamál. Fyrstu tvær vikurnar í tökum eru þegar búnar en Bjarne er væntanlegur innan skamms til landsins. Óskar getur ekki neitað því að þessar vikur hafi verið viðburðarríkar.

„Við erum búin að heimsækja strippbúllur og finna lík í fjöru.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.