Innlent

Bæjarstjóri Akureyrar sprettir úr spori í nafni friðar

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, hleypur með Friðarkyndilinn.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, hleypur með Friðarkyndilinn. Mynd/Apa Guha Vesely
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, fór fyrir bærjarbúum í Friðarhlaupinu á Akureyri í dag en Friðarhlaupið er aðili að alþjóðlegu ári ungmenna sem Sameinuðu þjóðirnar og UNESCO standa að.

Bæjarstjóranum voru veitt samfélagsverðlaunin "Kyndilberi friðar" ásamt formanni KA, Hrefnu Gunnhildi Torfadóttur og skipa þau sér þar með á bekk með Carl Lewis, Vigdísi Finnbogadóttur og tennisstjörnunni Billie Jean King, en verðlaunin eru afhent einstaklingum sem hafa unnið þrotlaust óeigingjarnt starf í þágu betra samfélags.

Friðarhlaupið - World Harmony Run er alþjóðlegt kyndilboðhlaup og er tilgangur hlaupsins að efla frið, vináttu og skilning. Friðarfrömuðurinn Sri Chinmoy stofnaði Friðarhlaupið árið 1987 og hefur nú verið hlaupið í rúmlega 100 löndum síðustu 24 árin. Í ár verður hlaupið hringinn í kringum Ísland, 5.-22. júlí, en þá munu 20 hlauparar frá 13 þjóðlöndum hlaupa með Friðarkyndilinn.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu hlaupsins: www.worldharmonyrun.org




Fleiri fréttir

Sjá meira


×