Sport

Sigfríður og Björn Íslandsmeistarar para í keilu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sigfríður og Björn lukkuleg með bikarinn sem þau eru farin að þekkja ansi vel.
Sigfríður og Björn lukkuleg með bikarinn sem þau eru farin að þekkja ansi vel.
Íslandsmót para í keilu var sérstakt að þessu sinni fyrir þær sakir að spilað var í blönduðum olíuburði, 36 fet og 39 fet, en þetta er í annað skiptið sem það er gert. Var gerður góður rómur að þessu fyrirkomulagi.

Dagný Edda Þórisdóttir og Ívar G. Jónsson voru efst allt mótið, nema eftir síðasta leik milliriðilsins, en þá komust þau Sigfríður Sigurðardóttir og Björn Sigurðsson upp í efsta sætið á einungis sjö pinnum.

Sigfríður og Björn unnu fyrsta leikinn í úrslitunum gegn Dagnýju og Ívari með einungis þrem pinnum, 390-387.  Mikil spenna og góð spilamennska.

Sigfríður og Björn unnu síðan einnig annan leikinn og nú með 41 pinna, 372-331,  og urðu því verðskuldaðir Íslandsmeistarar para 2011.

Þau hjónin hafa átt afar góðu gengi að fagna í gegnum árin en þetta er í fjórða sinn sem þau verða Íslandsmeistarar í parakeppni. Fyrri titlar þeirra voru 2003, 2004 og 2006.

Einungis eitt par hefur unnið þennan titil oftar en þau, en það eru þau Elín Óskarsdóttir og Alois Raschhofer sem hafa unnið titilinn sex sinnum, en líklegt verður að teljast að þau Sigfríður og Björn muni gera harða atlögu að þessu meti á næstu árum enda enn í flottu formi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×