Veiði

Laxinn mættur í Sogið

Karl Lúðvíksson skrifar
Mynd: www.svfr.is
Lax er genginn í Sogið og sáust til að mynda þrír laxar á Öldunni, ofan af brúnni við Þrastarlund, síðastliðinn laugardag. Það voru nemendur og kennarar á flugukastnámskeiði Veiðiflugna sem sáu laxana ofan af brúnni.

Ekki var inni í myndinni að kasta á þann silfraða, veiði er ekki leyfð á svæðinu fyrr en síðla þessa mánaðar, og aðeins notast við bómullarhnoðra á línuendanum við kennsluna.

Hins vegar var hann í allbetra færi veiðiþjófurinn sem var gómaður í Alviðru í gær með Tobyspón. Tekið var niður bílnúmer viðkomandi, myndir teknar og hann væntanlega kærður í fyrramálið.

Þó er veitt á tveimur silungasvæðum í Soginu, fyrir landi Þrastarlundar og Ásgarðs. Kæmi það ekki á óvart þó að veiðimenn á þessum svæðum kræktu í lax áður en að formlegt laxveiðitímabil hefst í ánni.

Birt með góðfúslegu leyfi SVFR








×