Innlent

Leita samstarfs við Íslendinga vegna siglinga um Norðurskautið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kínverjar sem og ráðamenn fleiri þjóða hafa rætt þann möguleika við íslensk stjórnvöld að á Íslandi verði þjónusta vegna siglinga yfir Norðurskautið.

Kínverjar áforma í sumar að láta ísbrjótinn Snjódrekann sigla norðausturleiðina úr Kyrrahafi, með norðurströnd Rússlands og til Íslands, en því er nú spáð að þarna muni á næstu áratugum opnast ábatasöm siglingaleið milli Asíu og Evrópu.

Íslenskt stjórnvöld finna fyrir áhuganum. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að kínverskur ráðherra hafi komið hingað til lands sérstaklega til að ræða þann möguleika að efna til samstarfs við Ísland um þjónustu við þær siglingar.

Sveitarfélög á Norðausturlandi sjá þarna tækifæri og hafa sameinast um að vinna að því að stór höfn verði gerð í Gunnólfsvík á Langanesi, og það vekur athygli að kínverski sendiherrann á Íslandi fór þangað í haust að skoða aðstæður.

Össur segir margar þjóðir hafa áhuga. Þannig hafi utanríkisráðherra Singapúr beinlínis verið hér á ferðinni fyrir 4-5 mánuðum til að ræða þessi sömu mál. Þeir hafi einnig áhuga á samstarfi við Íslendinga um þessa siglingaleið.

Áhuginn skýrist af fjögurþúsund kílómetra styttingu siglingaleiðar milli helstu hafnarborga Austur-Asíu og Vestur-Evrópu. Össur segir að kostnaður við að flytja vörur milli Kyrrahafs og Norður-Atlantshafs gæti kannski minnkað um 40 prósent.

Því hefur almennt verið spáð að áratugir eigi enn eftir að líða þar til vörusiglingar hefjist fyrir alvöru yfir pólinn. Össur telur að þetta gæti gerst fyrr. Bráðnun hafíss á norðurslóðum hafi reynst miklu örari á síðustu tíu árum heldur enn menn gerðu ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×