Innlent

Síðasti naglinn í líkkistu jarðhitanýtingar á Íslandi

Ríkisstjórnin fer nærri því að reka síðasta naglann í líkkistu jarðhitanýtingar á Íslandi, með áformum sínum um að takmarka leigutíma jarðhitaauðlinda við þrjátíu ár. Þetta sagði forstjóri HS Orku á fundi Jarðhitafélags Íslands í dag.

Stendur jarðhitinn í stjórnkerfinu? Þannig var spurt á fundinum en þar gagnrýndi Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, hvernig stjórnsýslan höndlaði mál jarðhitageirans.

Hann sagði að það sem væri kannski verst væri að fá ekki svör. Hlutirnir væru ekki að gerast, í skipulagsmálum hjá sveitarfélögum, hjá stofununum. Frestir væru ekki virtir. Allsstaðar væru tafir. Þær leiddu til kostnaðarauka og tafa. Ekki væri hægt að standa við gerða samninga.

"Og þá svona fjarar undan þessu smámsaman, ef fram fer sem horfir," sagði Júlíus.



Forstjórinn sagði að undirstofnanir ráðuneyta virtust alls ekki telja það hlutverk sitt að vinna með framkvæmdaaðilum, - en þannig hafi það ekki verið áður. Nánast frá því farið var að nýta jarðhitann til raforkuframleiðslu fyrir stóriðju hafi ástandið verið svona. Það sé ekki að minnka, ágerist ef eitthvað er, segir Júlíus.

Spurður hvort hann skynji ástandið þannig að í lagi sé að nýta jarðhitann, svo fremi að það sé ekki til stóriðju, kveðst Júlíus telja alveg ljóst að áherslan á umhverfisvernd stóraukist ef rafmagnið eigi að fara til stóriðju.

Forstjóri HS Orku ýjar að því að með nýjasta útspili ríkisstjórnarinnar, um þrjátíu ára hámarks leigutíma jarðhitaauðlinda, sé komið að endalokum frekari jarðhitanýtingar á Íslandi. Það verði ekki leyst nema með stórhækkun orkuverðs.

"Það væri eina leiðin til þess að þetta yrði ekki síðasti naglinn í líkkistuna," sagði Júlíus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×