Handbolti

Þórir: Andinn hefur skánað

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar

Hornamaðurinn Þórir Ólafsson segir að íslenska landsliðið sé næstum búið að leggja vonbrigðin í milliriðlinum til hliðar og ætli sér sigur í kvöld.

"Menn eru margir þreyttir en þetta er ekki búið. Við ætlum okkur að ná þessu fimmta sæti og bæta fyrir síðustu þrjá leiki," sagði hornamaðurinn lunkni sem hefur átt flott mót.

"Andinn hefur skánað. Menn eru að taka gleði sína á ný, farnir að einbeita sér að næsta leik og ætla að enda mótið með sóma.

"Menn hafa ekki lagt árar í bát en þetta verður mjög erfitt því Króatar eru einnig svekktir út í sjálfan sig. Við verðum að lemja á þeim. Þessi lið á Balkanskaganum fara oft að pirrast ef það er tekið á þeim. Við verðum að taka fast á þeim og þá kemur þetta.

"Menn verða eflaust smá bitrir eftir mót því markmiðið var að komast aðeins lengra. Það þarf margt að ganga upp til að ná slíku markmiði og þetta gekk ekki núna," sagði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×