Innlent

Deilt um hvalveiðar Íslendinga: "James Bond skýtur þarna yfir markið"

Erla Hlynsdóttir skrifar
Þó svo James Bond sér ósjaldan með skotvopn, er leikarinn Pierce Brosnan harðvígur andstæðingur þess að skotið sé á hvali.
Þó svo James Bond sér ósjaldan með skotvopn, er leikarinn Pierce Brosnan harðvígur andstæðingur þess að skotið sé á hvali. Samsett mynd/Vísir
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ætlar ekki að bregðast við opinberri fordæmingu leikarans Pierce Brosnan á hvalveiðum Íslendinga.

Brosnan, sem er hvað best þekktur fyrir hlutverk sitt sem njósnarinn James Bond, er harðorður í garð Íslendinga í opnu bréfi þar sem hann hvetur Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, til aðgerða.

„Það er kominn tími til að senda Íslandi skilaboð sem ekki er hægt að hunsa: Viðskiptaþvinganir," skrifar Brosnan í bréfinu sem birtist í bandarískum fjölmiðlum á dögunum.

Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, segir Brosnan ekki fara með rétt mál að öllu leyti í bréfinu þar sem hann sakar Íslendinga um ómannúðlegar slátranir á hvölum og vill að þeir gjaldi fyrir það í eitt skipti fyrir öll.

„James Bond skýtur þarna yfir markið sem er nú heldur ólíkt honum," segir Bjarni í samtali við fréttastofu.

Hann bendir raunar á að nokkuð sé síðan Brosnan hætti að leika njósnara hennar hátignar og kannski sé það ástæða þess að honum er farið að förlast.

Stutt er síðan Barack Obama ítrekaði stuðning Bandaríkjastjórnar við hvalveiðibann og hafnar hann alfarið veiðum í vísindaskyni. Í yfirlýsingu sem Hvíta húsið sendi frá sér nýverið segir að Bandaríkjastjórn hafi verulegar áhyggjur vegna aðgerða íslenskra og norskra fyrirtækja til að endurræsa alþjóðlega verslun með hvalaafurðir.

Bréf Brosnan má lesa hér í heild sinni á Huffington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×