Erlent

Eðalrauðvín eyðilagðist í gámaslysi

Rauðvín að andvirði yfir 200 milljóna króna eyðilagðist í gámaslysi í höfninni í Sydney í Ástralíu um helgina en verið var að flytja vínið um borð í skip á leið til Bandaríkjanna.

Um var að ræða eitt dýrasta rauðvínið sem framleitt er í Ástarlíu en það er af tegundinni Mollydooker Velvet Glove og kostar flaskan af því ekki undir 23.000 krónum.

Stór gámalyfta við höfnina var að flytja gám með 462 kössum af þessu eðalvíni þegar óhappið varð þannig að gámurinn skall til jarðar og vínið eyðilagðist.

Víngerðarmaðurinn Sparky Marquis var með böggum hildar þegar hann frétti af slysinu enda var þarna um að ræða þriðjunginn af uppskeru hans af þessu víni frá síðasta ári. Sparky rekur vínbúgarð í McLaren dalnum. Hinsvegar kemur fram í frásögn BBC af þessu óhappi að vínið hafi verið að fullu tryggt.

Þeir sem opnuðu gáminn eftir óhappið sögðu að innihaldið hafi litið út eins og blóðbað en að lyktin hafi hinsvegar verið alveg guðdómleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×