Erlent

Pólitískur leið­togi Hamas ráðinn af dögum í Íran

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Haniyeh þótti hófsamari en aðrir leiðtogar Hamas og var lykilmaður í viðræðum um vopnahlé á Gasa.
Haniyeh þótti hófsamari en aðrir leiðtogar Hamas og var lykilmaður í viðræðum um vopnahlé á Gasa. AP/Vahid Salemi

Áhyggjur af stigmögnun átaka í tengslum við stríð Ísrael gegn Hamas fara nú vaxandi eftir að fregnir bárust af því að Ismail Haniyeh, pólitískur leiðtogi samtakanna, hefði verið ráðinn af dögum í Íran.

Íranskir ríkismiðlar, sem endurspegla afstöðu stjórnvalda, segja Ísraelsmenn ábyrga og að aftakan muni fresta vopnahléi á Gasa um marga mánuði. Þá sé einsýnt að það kalli á hefndaraðgerðir frá hinum ýmsu hópum, sem njóta stuðnings Íran.

Ísraelar hafa ekki lýst ábyrgðinni á hendur sér en vitað er að stjórnvöld þar í landi hafa staðið fyrir banatilræðum í Íran, aðallega í tengslum við kjarnorkuáætlun landsins.

Drápið á Haniyeh hefur þegar verið gagnrýnt af háttsettum embættismanni Palestínsku heimastjórnarinnar, Hussein al-Sheikh, sem hefur þó verið gagnrýninn á Hamas. Sakaði hann banamenn Haniyeh um heigulshátt.

Öryggisráð Íran hefur fundað vegna málsins en það þykir meðal annars vekja spurningar um öryggi æðstu ráðamanna landsins. Leiðtogi Íran, Ayatollah Ali Khameini, fundaði með Haniyeh á þriðjudag og fleiri ráðamenn hittu hann aðeins klukkustundum áður en hann var myrtur.

Fregnirnar koma á hæla árásar Ísrael á úthverfi Beirút, þar sem Fuad Shukr, háttsettur leiðtogi Hezbollah hafðist við. Talsmenn Hezbollah hafa staðfest að hann hafi verið á svæðinu þegar árásin var gerð en ekki að hann hafi fallið. Leitað sé í rústunum.

Yfirvöld í Líbanon hafa lýst furðu vegna árásarinnar en þau höfðu greint frá því í gær að hafa verið fullvisuuð um að Ísrael myndi ekki svara árás síðustu helgar, þar sem tólf börn létust á Gólan-hæðum, með árás á höfuðborgina.

Stóðu vonir til þess að Ísraelsmenn myndu svara með hófsömum hætti og Hezbollah, sem hefur neitað að hafa staðið fyrir árásinni á Ísrael, sömuleiðis. Fyrirheit um að menn haldi aftur af sér þykja nú orðin tóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×