Erlent

Reyndi að fjarlægja kviðslit með smjörhníf

Mynd/AFP
63 ára gamall maður í suðurhluta Kaliforníufylkis liggur nú á spítala eftir að hafa reynt að fjarlægja kviðslit sem stóð út úr maga hans með smjörhníf, en að tilþrifunum loknum tróð hann svo sígarettu í opið sárið.

Það var kona mannsins sem hafði samband við lögreglu síðastliðinn mánudag, en að hennar sögn var maðurinn hennar orðinn þreyttur á því að bíða eftir því að komast í aðgerð, svo hann ákvað að taka málin í sínar hendur.

Þegar lögreglan kom á svæðið lá maðurinn nakinn í hægindastól og stóð handfang hnífsins út úr maga hans. Á meðan beðið var eftir sjúkraliðum ákvað maðurinn hinsvegar skyndilega að kippa hnífnum út og tróð svo sígarettu í sárið í stað hnífsins.

Samkvæmt vef KTLA sjónvarpsstöðvarinnar í Los Angeles, skaddaði maðurinn engin mikilvæg líffæri, en hann mun að sögn lögreglu ekki þurfa að bíða mikið lengi eftir kviðslitsaðgerðinni langþráðu, sem verður í þetta skiptið framkvæmd af alvöru læknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×