Handbolti

Stella: Ætlum að taka stóra titilinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stella Sigurðardóttir er komin á gott skrið með liði Fram í N1-deild kvenna eftir að hafa verið frá í nokkrar vikur vegna axlarmeiðsla.

Stella missti til að mynda af lokakeppni EM í Danmörku vegna meiðslanna en fékk sárabót þegar að hún varð bikarmeistari með sínu liði í febrúar eftir sigur á Val í úrslitaleiknum.

„Þetta hefur gengið vel hjá mér. Ég hef verið dugleg í endurhæfingunni og er að koma sterk til baka,“ sagði Stella en sjá má viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.

Á morgun hefst úrslitakeppnin og mætir Fram liði Stjörnunnar í fyrstu umferð. Fram missti af deildartitlinum eftir að hafa tapað fyrir Val með átta marka mun í næstsíðustu umferðinni.

„Við ákváðum að gleyma þessum leik enda var hann lélegur af okkar hálfu. Við ákvðum að vera frekar glaðar og kátar á æfingum,“ sagði Stella.

Margir reikna með að Valur og Fram muni eigast við í lokaúrslitunum en Stella segir að leikmenn Fram séu með einbeitinguna í lagi fyrir rimmuna gegn Stjörnunni.

„Þetta verða mjög erfiðir leikir. Við unnum báða leikina gegn Stjörnunni í vetur en bara með einu marki. Við munum fyrst hugsa um Val ef þessi lið munu svo mætast í úrslitunum og okkur hefur gengið ágætlega að einbeita okkur að Stjörnunni.“

„Við ætlum okkur samt að taka stóra titilinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×