Lífið

Elíza fær góða dóma

Góðar viðtökur Elíza hefur fengið góða dóma fyrir EP-plötu sína Ukulele Songs for You í Bretlandi.
Góðar viðtökur Elíza hefur fengið góða dóma fyrir EP-plötu sína Ukulele Songs for You í Bretlandi.

Tónlistarkonan Elíza Geirsdóttir Newman hefur fengið góða dóma í Bretlandi fyrir EP-plötu sína Ukulele Songs for You sem kom út í stafrænu formi fyrir skömmu. Platan inniheldur lögin Ukulele Song for You, Eyjafjallajökull, sem sló í gegn þegar Elíza flutti það á fréttastöðinni Al Jazeera, og áður óútgefið lag sem nefnist Out of Control.

„Lögin á þessari stuttu EP-plötu eru krúttleg. Með því að nota ukulele og hafa undirspilið einfalt hefur Elízu tekist að búa til sæta og flotta plötu með lögum sem henta vel til hlustunar á sunnudagseftirmiðdögum," segir í dómi síðunnar Addict Music.

Gagnrýnandi síðunnar Stereoboard er einnig jákvæður: „Með ukulele í höndunum er erfitt að ímynda sér að Elíza hafi verið í rokkhljómsveitum og líti á System of a Down og Led Zeppelin sem tvo af helstu áhrifavöldum sínum. Hérna er hún langt frá rótum sínum í Bellatrix en samt hefur henni tekist að búa til einfalda og seiðandi þriggja laga EP-plötu."

Þá gefur gagnrýnandi síðunnar Gobshout plötunni sjö í einkunn af tíu mögulegum og segir tónlistina vera laglega og léttleikandi. Vefsíðan Music-News gefur plötunni þrjár stjörnur af fimm mögulegum. Gagnrýnanda hennar finnst rödd Elízu samt ekki fá að njóta sín í titillaginu og bætir við að lögin þrjú séu ágæt en ekkert umfram það.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×