Innlent

Meirihluti Hafnfirðinga vill ekki sjá álverið stækkað

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík.
Meira en helmingur Hafnfirðinga telja neikvæð áhrif vera af álverinu í Straumsvík. Þar vega mengun og áhrif þess á umhverfið þyngst. Meirihluti Hafnfirðinga vill ekki stækkun álversins og í ljósi könnunarinnar telur Hafnarfjarðarbær ekki tilefni til nýrra íbúakosninga.

Könnunin var unnin að beiðni Hafnarfjarðarbæjar og Rio Tinto Alcan. Könnunin er viðamikil og er byggð bæði á hefðbundinni símakönnun og rýnihópum, en hún er liður í viðræðum hafnarfjarðarbæjar við Rio Tinto um 20 prósent framleiðsluaukningu álversins.

Mikill meirihluti Hafnfirðinga er samþykkur slíkri framleiðsluaukningu en þegar kemur að stækkun álversins er staðan önnur.

Rétt tæpur helmingur bæjarbúa vilja annaðhvort láta staðar numið eftir 20% framleiðsluaukningu eða draga úr starfseminni. Rúm þrjú prósent vilja hreinlega láta loka álverinu, en rúm 47 prósent vilja hins vegar auka starfsemina. Miðað við þessar tölur er því meiri andstaða við stækkun álversins meðal bæjarbúa en með.

Það sem Hafnfirðingar setja mest fyrir sig, samkvæmt könnuninni, er mengun frá álverinu í Straumsvík, bæði loftlagsmengun og sjónmengun.

Könnunin lýsir bæjarfélagi sem er klofið í afstöðu sinni til álversins en flesta Hafnfirðinga dreymir þó um álverslausa framtíð. Spurðir hver framtíðarstefna bæjarins ætti að vera er stóriðja þar í neðsta sæti, fyrir neðan nýsköpun í atvinnurekstri, ferðmannaiðnað og menningu og listir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×