Innlent

Elding í vél Icelandair - röskun á flug félagsins í dag

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Eldingu laust niður í flugvél Icelandair rétt áður en hún lenti á flugvelli í París um miðjan dag í gær. Einhver röskun verður á flugi félagsins í dag vegna atviksins.

Vélin var á leið frá Keflavík til Charles de Gaulle flugvallarins í París þegar óhappið átti sér stað, en hún var ein af sjö til átta vélum sem fengu í sig eldingu á þessum slóðum í gær. Guðjón Arngrímsson er upplýsingafulltrúi Icelandair.

„Þessar vélar eru gerðar til þess að taka á móti eldingum og það gerist annað slagið og í sjálfum sér engin hætta á ferðum," segir Guðjón.

Greip hræðsla um sig á meðal farþeganna? „Mér er ekki kunnugt um það, en farþegar verða varir við þetta þegar svona gerist."

Við svokallaða eldingaskoðun kom í ljós smávægileg bilun í radsjárbúnaði vélarinnar og var hún send í viðgerð ásamt öðrum vélum sem urðu fyrir eldingu. Seinkun varð á flugi félagsins frá París vegna þessa, en þar sem ljóst var að skoðunin tæki tíma var ákveðið að senda aðra vél til borgarinnar seinnipartinn í gær, en hún kom með farþega til landsins í morgun. Búast má við einhverri seinkun á flugi félagsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×