Innlent

Eygló ósátt við aðkomu ríkisins að Sjóvá

„Eins og við sjáum á athugasemdum ESA þá virðist vera að okkur bar engin skylda til að standa í þessu, og þarna er í raun verið að yfirfæra skuldir sem hefðu lent á þeim sem voru með tryggingar hjá Sjóvá, yfir á alla skattgreiðendur," segir segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Það á að vera í undantekninartilfellum sem ríkið grípur svona inn í á samkeppnismarkað og við höfum kvartað mikið undan því hér á íslandi að það sé fákeppni á vátryggingamarkaði," segir hún.

Eygló var gestur Í bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hún sagði óeðlilegt að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafi ekki lagt fyrir þingið á sínum tíma að taka ákvörðun um aðkomu í rikisins að kaupum á Sjóvá.

Snemma í desembermánuði lagði Eygló fram fyrirspurn á Alþingi til Steingríms um kaup ríkisins á hlut í eignarhaldsfélagi Sjóvár. Hún hefur enn ekki fengið svar, þrátt fyrir að ráðherra eigi aðeins að hafa tíu þingdaga frest til svara.

Ljóst er að ríkið hefur tapað á þessum viðskiptum en Steíngrímur gaf út í fjölmiðlum í gær að viðskiptin hefðu engu að síður verið þess virði því tapið hefði orðið enn meira ef Sjóvá hefði farið í þrot.

„Þá er hann að tala um að tjónið hefði orðið meira fyrir þá sem voru tryggðir hjá Sjóvá, viðskiptavini Sjóvá," segir Eygló.

Hún bendir á að fákeppni ríki á vátryggingamarkaði hér á landi og erfitt sé fyrir nýja aðila að koma inn á markaðinn. Ef Sjóvá hefði farið í þrot því ekki útilokað að það hefði orðið til þess að nýir aðilar fengju tækifæri, og að mögulega hefði útkoman því verið betri fyrir almenning til lengri tíma litið.

Að mati Eyglóar er alvarlegasti hluti málsins að þingið hafi ekki fengið að fjalla um málið. „Það sem mér finnst allra verst í þessu máli er að við sem erum kjörnir fulltrúar almennings, eigum að gæta hagsmuna almennings, við fengum aldrei tækifæri til að fjalla um þetta. Þetta er bara ákvörðun sem er tekin af embættismönnum og fjármálaráðherra og það virðist vera eins og það komi okkur bara ekki við."

Hlusta má á Eygló Í bítinu með því að smella hér, eða á tengilinn hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×