Innlent

Snjóþungt á Akureyri

Valur Grettisson skrifar
Það er snjóþungt á Akureyri. Flestar götur eru þó færar. Það er þó fallegt um að litast eins og sjá má á myndinni sem Þórhallur hjá Pedromyndum tók.
Það er snjóþungt á Akureyri. Flestar götur eru þó færar. Það er þó fallegt um að litast eins og sjá má á myndinni sem Þórhallur hjá Pedromyndum tók. Mynd/ Pedromyndir

Það er snjóþungt á Akureyri en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru flestir vegir í bænum færir. Snjónum kyngir niður að sögn varðstjóra lögreglunnar en það er logn og því líkir hann veðrinu við jólasnjóinn.

Lögreglan á Akureyri hafði í nógu að snúast fyrir helgi þegar óveður geisaði. Björgunarsveitir ásamt lögreglu aðstoðuðu þá talsverðan fjölda starfsmanna Sjúkrahúss Akureyrar, Dvalarheimilisins Hlíðar og Kjarnalundar sem og nokkurra sambýla við að komast til og frá vinnu en almennar samgöngur lágu niðri á föstudaginn.

Þá kom til tveggja sjúkraflutninga innanbæjar þar sem sjúkraflutningsmenn þurftu aðstoð frá björgunarsveitarmönnum til að sinna sínum störfum en mikil ófærð var í þeim götum sem fara þurfti í.

Lögreglan vill árétta að fólk kanni ítarlega um veður og færð áður en það leggur af stað að heiman frá sér en nú hafa flestar af götum Akureyrar verið mokaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×