Innlent

Þátttakendur í eineltiskönnun sviknir um nafnleynd

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjármálaráðuneytið
Fjármálaráðuneytið

Fjármálaráðuneytið braut persónuverndalög þegar þátttakendum í könnun á einelti meðal ríkisstarfsmanna var veitt röng fræðsla um með hvaða hætti svör yrðu rekjanleg til þeirra. Persónuvernd komst að þessari niðurstöðu í úrskurði sem birtur var í dag.

Forsaga málsins er sú að í nóvember síðastliðnum barst Persónuvernd ábending frá lögreglu um að persónuupplýsingar hefðu í september síðastliðnum verið teknar ófrjálsri hendi frá Miðlun ehf. af fyrrum starfsmanni þess. Miðlun sá um framkvæmd könnunarinnar. Meðal þess sem fyrrum starfsmaðurinn tók voru svör sem einstaklingar gáfu þegar þeir tóku þátt í könnun fjármálaráðuneytisins á einelti meðal ríkisstarfsmanna.

Í framhaldi af ábendingu lögreglu fór Persónuvernd, hinn 19. nóvember síðastliðinn, í heimsókn til Miðlunar og skoðaði sérstaklega vinnslu þess fyrir fjármálaráðuneytið vegna umræddrar eineltiskönnunar. Þá upplýsti Miðlun að þar til þjófnaðurinn komst upp hefði skrá yfir spurningar og svör við þeim verið auðkennd með nöfnum þátttakenda. Þátttakendunum hafði hins vegar verið lofað að könnunin væri nafnslaus. Ýmsum gögnum um málið hefði síðan verið eytt eftir að upp komst um þjófnaðinn.

Í úrskurði Persónuverndar segir að rannsóknin á einelti meðal ríkisstarfsmanna hafi verið unnin samkvæmt ákvörðun fjármálaráðuneytisins og hafi ákvörðunarvald um fyrirkomulag könnunarinnar verið í höndum þess. Því líti Persónuvernd á fjármálaráðuneytið sem ábyrgðaraðila vinnslunnar.

Persónuvernd segir að þessi þáttur lúti einungis að þætti fjármálaráðuneytisins. Tekið verði á þætti Miðlunar í öðru máli.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×