Innlent

Toppar í jólaveislu en tölvuskeyti á óbreytta

Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri, gagnrýnir núverandi meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs harðlega fyrir að halda bæjarfulltrúum veislu á meðan niðurskurður bitni á starfsfólki.
Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri, gagnrýnir núverandi meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs harðlega fyrir að halda bæjarfulltrúum veislu á meðan niðurskurður bitni á starfsfólki.
Kostnaður vegna veislu sem bæjarstjórn Kópavogs hélt á Þorláksmessu fæst ekki uppgefinn á bæjarskrifstofnum. Að sögn Örnu Schram upplýsingafulltrúa liggja þessar upplýsingar enn ekki fyrir.

Gunnar I. Birgisson, bæjarfullrúi minnihluta Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi bæjarstjóri, bað um sundurliðaðan kostnað vegna veislunnar á fundi bæjarráðs 6. janúar. Sagði hann um að ræða veislu sem bæjarstjórnin hefði haldið sjálfri sér í Molanum, menningarmiðstöð bæjarins fyrir ungt fólk.

„Mér fannst þetta óþarfi í ljósi þess að starfsmenn fengu ekki einu sinni jólakveðju frá bæjarstjórn og bæjarstjóra nema í gegn um tölvupóst," segir Gunnar. „Með minni fyrirspurn er ég bara að mótmæla þessu bulli. Þetta er bara algjörlega úr takti við tímann."

Hinn 7. janúar óskaði Fréttablaðið eftir upplýsingum frá Kópavogsbæ um veisluna. Meðal annars var spurt um reikninga og gestalista. Sem fyrr segir er engin svör að fá um málið á bæjarskrifstofum Kópavogs og Gunnari hefur heldur ekki verið svarað. Hann segir að gestir hafi verið bæjarfulltrúar og helstu yfirmenn og makar þeirra. Í ljósi efnahagsástandsins hafi hver veislugestur borgað 2.500 krónur upp í kostnaðinn.

„Menn geta ímyndað sér að veisla sem stendur frá klukkan sjö til eitt um nótt kostar nú örugglega meira en það," bendir Gunnar á og ítrekar að þegar vel árar sé ekkert að því að launa framlag bæjarfulltrúa og maka þeirra sem mikið mæði á.

Gunnar segir að á árunum 1990 til 1996 hafi hver bæjarfulltrúi komið með sitt eigið vín ef haldin var veisla. Þegar hann var bæjar­stjóri árið 2008 hafi hann boðið bæjarfulltrúunum í mat og drykk eftir gerð fjárhagsáætlunar.

„Svo snöpuðum við nú hvítvín sem við áttum þarna en ég keypti rauðvínið í veisluna. Það gerði ég úr eigin vasa því það hefur alltaf farið mikið í taugarnar á mér að drekka á kostnað skattborgaranna. Menn geta borgað það sjálfir og sérstaklega þegar herðir að," undir­strikar Gunnar, sem ekki mætti í veisluna á Þorláksmessu:

„Þegar við erum að skera allt niður þá passar þetta ekki gagnvart starfsfólkinu okkar. Það hefur alltaf fengið jólakort og litla gjöf til að sýna því þakklæti fyrir vel unnin störf. En þetta var haldið í staðinn. Ég bara mæti ekki í svona rugl."

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×