Innlent

Ásmundur Einar: Ætla að vera áfram í VG

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, segist ekki hafa íhugað að segja sig úr þingflokknum. Hann tekur þó að sumu leyti undir gagnrýni Atla og Lilju.

Ásmundur tilheyrir hinni svokölluðu órólegu deild vinstri grænna en hann hefur meðal annars gagnrýnt stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópusambandsmálum og sat hjá í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið líkt og Atli og Lilja.

Eftir að þau sögðu sig úr þingflokknum í gær hafa spurningar vaknað um stöðu Ásmundar innan flokksins. Hann segist þó ekki hafa íhugað að segja sig úr þingflokknum.

„Ég er í þingflokki VG og hef ekki lýst öðru yfir. En ég get tekið undir ákveðna gagnrýni sem þarna kemur fram og mönnum hefur verið ljós gagnrýni mín t.d. varðandi Evrópusambandsferlið en ég hef ekki tekið ákvörðun um að yfirgefa þingflokk VG, nei," segir Ásmundur Einar.

Kom ákvörðun þeirra þér á óvart? „Í sjálfu sér gerði hún það ekki og ég skil þeirra ákvörðun að mörgu leyti þrátt fyrir að ég ætli að vera áfram í þingflokki VG."

Atli og Lilja gagnrýna forystu Vinstri grænna harðlega í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér í gær.

Ert þú sammála þessari gagnrýni sem beinist meðal annars að formanni flokksins, þar er talað um foringjaræði svo dæmi sé tekið? „Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði en ég tek svona í grófum dráttum undir mörg þau sjónarmið sem koma fram í þeirra yfirlýsingu en ítreka þó að ég er áfram í Vinstri grænum og ætla að vera þar áfram," segir Ásmundur Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×