Innlent

Hátt í tólf tonnum af röntgenfilmum eytt í Guam

Röntgen mynd úr safni.
Röntgen mynd úr safni.
Landspítalinn hyggst eyða tíu til tólf tonnum af röntgenfilmum. Spítalinn óskaði eftir umsögn Persónuverndar vegna málsins. Fyrirhugað er að senda filmurnar til fyrirtækisins Film Tech Corporation í Tamuning, sem er landsvæði Bandaríkjanna í Guam.

Landspítalinn eyðir röntgen myndum á tíu ára fresti en þær eru varðveittar eftir sömu reglum og gilda um sjúkraskrár.

Fyrirkomulag eyðingarinnar hefur verið með sama hætti í fjöldamörg ár. Myndirnar hafa verið fluttar til fyrirtækisins Film Tech Corporation í Bandaríkjunum í læstum og innsigluðum gámum og endurunnar þar.

Fram kemur í áliti Persónuverndar að þetta fyrirkomulag sé hagkvæmara fyrir Landspítala en ef gögnunum væri eytt hér á landi. Myndirnar eru óraðaðar meðan á flutningi stendur og ekki fylgir myndunum nein skrá yfir hvaða gögn er um að ræða.

Landspítalinn telur að flutningur þessara röntgenmynda sé tryggur sem og fyrirkomulag eyðingarinnar.

Þeim filmum sem á að eyða verður komið fyrir í læstum gám. Filmuumslögunum með filmunum í er hent handahófskennt og án skipulags í gáminn. Staðsetning þeirra verður því óskipulögð og tilviljunarkennd í hrúgu 10-12 tonna af filmum. Engin skrifleg gögn eða listar fylgja filmunum.

Persónuvernd lítur svo á að málið heyri ekki undir sig, heldur undir Þjóðskjalasafn Íslands, Landlæknisembættið og eftir atvikum velferðarráðuneytið. Engu að síður er um sjúkraskrárupplýsingar að ræða og ber að gera ríkar kröfur til verndar þeirra að mati Persónuverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×