Innlent

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir snýr aftur á þing

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir formaður þingflokkks Vinstri grænna snýr aftur á þing í byrjun apríl. Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafa látið af öllum trúnaðarstörfum fyrir þingflokk Vinstri grænna og sitja ekki lengur í nefndum í umboði flokksins.



Þrír þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna vissu af úrsögn Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslasonar úr þingflokki Vinstri grænna kvöldið áður en þingflokknum var tilkynnt um úrsögnina. Þetta fullyrðir Morgunblaðið í dag.



Í umfjöllun um úrsögnina í Morgunblaðinu í dag segir, að fljótlega eftir að Atli og Lilja höfðu tilkynnt þingflokknum úrsögn sína hafði starfandi formaður þingflokks VG samband við yfirstjórn Alþingis og tilkynnti að þau Atli og Lilja myndu hætta nefndarstörfum í þingnefndum á vegum VG. Þau sitja í fimm nefndum og Lilja hefur gegnt formennsku í viðskiptanefnd, þar sem Atli situr einnig, og Atli hefur gegnt formennsku í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður gengið frá nýjum fulltrúum þingflokksins í nefndirnar á þingflokksfundi eftir hádegi.



Þriðji flokkurinn í ríkisstjórn ólíkleg niðurstaða að mati þingmanna


Óvíst er hvaða þýðingu þetta hefur verið stöðu þingflokksins og ríkisstjórnarsamstarfið. Nú er sama staða uppi og þegar fjárlögin voru samþykkt, en þau náðust í gegn með aðeins þriggja atkvæða meirihluta. Ríkisstjórnin treystir nú á stuðning þrjátíu og þriggja þingmanna, en Jóhanna Sigurðardóttir útilokaði ekki í gær að fenginn yrði þriðji flokkurinn að borðinu til að styrkja ríkisstjórnarsamstarfið. Þingmenn Vinstri grænna sem fréttastofa hefur rætt við telja þetta þó mjög ólíklegt. Úrsögn Atla og Lilju hafi þannig ekki komið mikið á óvart, uppi sé svipuð staða og þegar fjárlögin voru afgreidd og líklega verði keyrt á þrjátíu og þriggja þingmanna meirihluta. Í þessu samhengi hafa einhverjir nefnt að einstök mál verði ríkisstjórninni erfið, eins og stjórnlagaráðsmálið, en tveir þingmenn Samfylkingarinnar hafa sagt að þeir muni ekki styðja málið.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, áður en hún tók sér barneignarleyfi, snýr senn aftur á þing og er talað um apríl í því samhengi, en Árni Þór Sigurðsson hefur gegnt formennsku í þingflokknum í fjarveru hennar.



Dagsetning endurkomu hennar liggur ekki fyrir, en óvíst er hvaða breytingar það mun hafa í för með sér fyrir þingflokkinn. Ólafur Þór Gunnarsson, varaþingmaður Guðfríðar Lilju, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að Guðfríður myndi snúa til baka á þing í apríl næstkomandi. Samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar hefur verið rætt um fyrstu vikuna í apríl. Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason hafa fylgst að, en Guðfríður Lilja og Ögmundur eru nánir bandamenn. Ögmundur gaf eftir fyrsta sætið í forvali Vinstri grænna fyrir alþingiskosningarnar 2009 og gaf sjálfur út að hann styddi Guðfríði Lilju í toppsætið og stefndi sjálfur á annað sætið. Sem varð síðan niðurstaðan. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×