Lífið

Villtar klukkustundir á Íslandi þrátt fyrir skakkaföll

Rafmagnið fór tvívegis af hljóðkerfinu á tónleikum Hurts í Vodafone-höllinni. 
Fréttablaðið/Valli
Rafmagnið fór tvívegis af hljóðkerfinu á tónleikum Hurts í Vodafone-höllinni. Fréttablaðið/Valli
„Það er leiðinlegt að þetta þurfti að enda svona. Þetta hefði getað verið stöngin inn," segir Róbert Aron Magnússon, sem skipulagði tónleika bresku hljómsveitarinnar Hurts á sunnudagskvöld.

Rafmagnið fór tvívegis af hljóðkerfinu með skömmu millibili á meðan á tónleikunum stóð í Vodafone-höllinni. Síðari rafmagnsleysið varð í næst seinasta lagi sveitarinnar og alls var töfin sem af þessu hlaust um tuttugu mínútur. Eftir að síðasta laginu lauk fór sveitin af sviði og kom ekki aftur til að taka uppklappslag eins og venjan er. „Þeir hefðu líklega tekið eitt uppklappslag en þeir treystu ekki á það sem var í gangi," segir Róbert Aron. „Þetta er leiðindamál en sem betur fer var þetta alveg í lokin og þeir náðu að klára sitt sett."

Hljómborðsleikari Hurts, Adam Anderson, varð að vonum fúll þegar rafmagnið fór af í seinna skiptið og rauk af sviðinu. Hann kom þó aftur til að spila undir í lokalaginu. „Hann var ekki sáttur. Menn eru að koma alla þessa leið og vilja að svona verði tipp, topp," segir Róbert.

Hann kann engar skýringar á því hvað fór nákvæmlega úrskeiðis en segir málið í athugun. Hann hefur bæði rætt við forsvarsmenn Vodafone-hallarinnar og fyrirtækið HljóðX sem sá um hljóðkerfið. „Þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Við erum að hamast í því."

Hljómborðsleikarinn Anderson hafði lýst því yfir í viðtali við Fréttablaðið að hljómsveitin ætlaði að kíkja á næturlífið í Reykjavík eins og hún gerði er hún komið hingað síðasta haust. Það stóðu þeir félagar við þrátt fyrir skakkaföllin.

Einkapartí var haldið á skemmtistaðnum Austur þeim til heiðurs og stóð það yfir til klukkan fimm um nóttina þar sem þeir félagar skemmtu sér konunglega innan um fagurt kvenfólk. Miðað við Twitter-síðu söngvarans Theo Hutchcraft var nóttin í Reykjavík viðburðarrík. „Fjórtán villtar klukkustundir á Íslandi þar sem lögreglan kom við sögu, sprengingar, brennivín og ótrúlegar stelpur," skrifaði hann greinilega sáttur við kvöldið.

Hann bætti þó við að ekki hafi allt gengið að óskum. „Sigrar og skelfing á Íslandi. Afsakið og takk fyrir. Áttum villtar og yndislegar stundir á Íslandi eins og alltaf. Einn yndislegasti staður jarðar. Ást!"

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×