Innlent

Hagfræðingur svarar syni í bók fyrir börn

„Ég fann að mig langaði að prófa að skrifa bók fyrir börn en spurning sonar míns, sem ég gat ekki svarað, varð kveikjan að sögunni," segir Guðmundur Sverrir Þór, doktorsnemi í hagfræði og höfundur nýrrar barnabókar, Sjandri og úfurinn, sem kom út um miðjan marsmánuð.

Guðmundur er doktorsnemi í hagfræði við sænska landbúnaðarháskólann í Uppsölum og starfar sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu meðfram nám. Hann segist jafnvel sjá fyrir sér að skrifa jöfnum höndum um hagfræði og sögur fyrir börn á næstunni. Barnabókin, sem er hans fyrsta, verði líklega ekki sú síðasta.

„Ég er með aðra bók í smíðum þar sem sögupersónan verður áfram hinn fróðleiksfúsi gamli Sigurjón Andri, eða Sjandri. Hann spyr spurninga sem í fyrstu líta út fyrir að vera auðsvarað en það kemur svo á daginn að svörin liggja ekki í augum uppi. Sjálfur keppti ég í liði míns gamla menntaskóla í spurningakeppninni Gettu betur og það ergði mig svolítið að hafa ekki svar á reiðum höndum við einfaldri spurningu sonar míns –til hvers úfur væri. Leit mín að svarinu varð til þess að mér datt í hug að skrifa barnasögu þannig að það má segja að sonur minn hafi veitt mér innblástur."

Bókina skrifaði Guðmundur árið 2007 en gaf hana ekki út strax, þar sem leit að myndskreyti fyrir söguna varð lengri en hann hélt.

„Það endaði á því að fyrrverandi vinnufélagi minn, Andrés Andrésson, gerði teikningar sem pössuðu vel við söguna og þá lá beint við að koma henni út. Jú, ég hugsa að það sé óvenjulegt að hagfræðingar skrifi barnabækur en ég hef aldrei séð annað fyrir mér en að starfa við skriftir, og þá alveg eins bókaskrif eins og blaðaskriftir."

juliam@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×