Bakþankar

Já-hanna!

Gerður Kristný skrifar

Á laugardaginn las ég í Fréttablaðinu að mun færri karlmenn hér á landi tækju sér nú feðraorlof eftir efnahagshrunið en áður. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem heitir Konur í kreppu? og er samantekt á opinberum tölulegum gögnum á áhrifum efnahagshrunsins á velferð kvenna. Kannski er þetta rangnefni á skýrslunni því sé til dæmis aðeins niðurstaðan af nýtingu feðraorlofsins athuguð er ekki ólíklegt að leiða megi að því líkur að karlar séu ekki síður en konur í kreppu og þá vitaskuld líka börnin.

Við vorum stolt þjóð þegar feðraorlofinu var komið á en það er eins með það og svo margt annað sem þrotlaus jafnréttisbarátta aðeins örfárra þjóðinni til handa hefur komið til leiðar, það þarf ekki mikið til að henni miði af leið. Alltaf kemur það mér samt á óvart hvað jafnréttisumræða ergir marga. Það er stundum eins og verið sé að hefja máls á misréttinu í fyrsta sinn - inni á baðstofugólfinu eftir postillulesturinn - slíkt getur offorsið orðið. Fjölmiðlar stæra sig af því að sýna okkur heiminn eins og hann er en eins og Auður Aðalsteinsdóttir, doktorsnemi í bókmenntum, benti á í merkum hádegisfyrirlestri í Háskóla Íslands á fimmtudaginn mætti halda af fjölmiðlum fyrri tíma að konur hefðu ekki verið til.

Af þessum blöðum mætti þá halda að konur væru bara síðari tíma uppfinning - svona eins og snjallsíminn. Í síðustu viku komst kærunefnd jafnréttismála að því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög. Jóhanna var að reyna að gera allt rétt og vildi hafa vaðið fyrir neðan sig. Henni varð það á að hlusta á ráðgjafa sína. Sem betur fer kærði konan sem fannst hún órétti beitt og af þessum mistökum má draga mikilvægan lærdóm. Og vissulega voru þetta mistök.

Það er vandlifað og andstæðingar Jóhönnu á þingi ruku upp til handa og fóta og kröfðust afsagnar hennar, fólk sem ég hef aldrei séð beita sér í jafnréttismálum svo nokkru nemi. Það hefur Jóhanna hins vegar gert í gegnum tíðina og komið frumlegustu hugmyndum á koppinn. Það var til dæmis hún, og þá sem félagsmálaráðherra, sem stofnaði karlajafnréttisnefndina sem einmitt barðist hvað mest fyrir feðraorlofinu sem nefnt var hér í upphafi. Engri annarri treysti ég betur fyrir því að voka yfir jafnréttismálunum hér á landi en einmitt henni Jóhönnu.






×