Vönduð vinnubrögð Ólafur Þ. Stephensen skrifar 22. ágúst 2011 06:00 Ekki er ofmælt hjá Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands, að þingsályktunartillagan um rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða sé sigur fyrir náttúruvernd í landinu. Tuttugu svæði þar sem orkufyrirtækin hafa haft fullan hug á að virkja og varið hundruðum milljóna eða milljörðum króna til rannsókna og undirbúnings eru samkvæmt tillögunni sett í verndarflokk. Þau verða ósnortin af virkjanaframkvæmdum og nýtast með öðrum hætti, til dæmis útivistar og ferðaþjónustu. Á verndarlistanum eru til dæmis Norðlingaölduveita (sem hefði haft áhrif á Þjórsárver), Torfajökulssvæðið, Langisjór, Kerlingarfjöll, Ölkelduháls (Bitruvirkjun), Gjástykki, Brennisteinsfjöll og Grændalur. Það sem almenningur á kannski ekki að venjast er að þessi þingsályktunartillaga er ekki niðurstaðan af einhverjum pólitískum hráskinnaleik og hrossakaupum. Tillagan er byggð á grundvelli gífurlega mikillar vinnu og upplýsingaöflunar fjölda færustu sérfræðinga, hvers á sínu sviði. Horft var á virkjanakostina út frá mismunandi sjónarhornum orkunýtingar, náttúruverndar, efnahags- og samfélagslegra áhrifa, ferðamennsku og verndunar fornleifa og menningarminja. Hvorki þrýstingur orkufyrirtækja né ýtrustu kröfur verndarsinna réðu niðurstöðunni, heldur byggist hún á köldu og yfirveguðu faglegu mati. Útkoman varð sú forgangsröðun, sem þingsályktunartillagan er byggð á. Á næstu vikum gefst almenningi, félagasamtökum og hagsmunaaðilum kostur á að segja sitt álit á þingsályktunartillögunni. Alþingi tekur hana síðan til meðferðar og er markmiðið að afgreiða hana fyrir 1. febrúar á næsta ári. Miklu skiptir að sú tímaáætlun haldi, meðal annars til að orkufyrirtækin geti sett á fullt framkvæmdir við virkjanakosti sem ákveðið verður að ráðast í. Að sjálfsögðu verða ekki allir sammála forgangsröðun sérfræðinganna og flokkuninni sem nú er gert ráð fyrir. Í Fréttablaðinu á laugardag kom fram að líkast til yrðu virkjanir í neðri hluta Þjórsár, sem gert er ráð fyrir að verði ráðizt í samkvæmt tillögunni, erfiðasta úrlausnarefnið á Alþingi. Innan þingflokks Vinstri grænna mun ríkja talsverð andstaða við þær virkjanir. Á því máli eru margar hliðar. Í Fréttablaðinu í dag kemur til dæmis fram að talsmenn verndunar villtra fiskstofna hafa miklar áhyggjur af áhrifum Þjórsárvirkjana á einn stærsta laxastofn landsins og sjóbirting í fljótinu. Aðalatriðið er að þegar tekin verður afstaða til virkjana í Þjórsá verði það á sömu faglegu forsendum og gerð rammaáætlunarinnar byggðist á, þar sem mismunandi sjónarmið eru vandlega vegin og metin, en umræðan fari ekki aftur í far pólitískra upphrópana. Orð Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingmanns VG, frá því í vantraustsumræðum í vor, um að forða yrði Þjórsá frá „stóriðjuöflum", „braski" og „einkavinavæðingu" gefa reyndar ekki alltof góða von um þau vönduðu vinnubrögð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Ekki er ofmælt hjá Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands, að þingsályktunartillagan um rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða sé sigur fyrir náttúruvernd í landinu. Tuttugu svæði þar sem orkufyrirtækin hafa haft fullan hug á að virkja og varið hundruðum milljóna eða milljörðum króna til rannsókna og undirbúnings eru samkvæmt tillögunni sett í verndarflokk. Þau verða ósnortin af virkjanaframkvæmdum og nýtast með öðrum hætti, til dæmis útivistar og ferðaþjónustu. Á verndarlistanum eru til dæmis Norðlingaölduveita (sem hefði haft áhrif á Þjórsárver), Torfajökulssvæðið, Langisjór, Kerlingarfjöll, Ölkelduháls (Bitruvirkjun), Gjástykki, Brennisteinsfjöll og Grændalur. Það sem almenningur á kannski ekki að venjast er að þessi þingsályktunartillaga er ekki niðurstaðan af einhverjum pólitískum hráskinnaleik og hrossakaupum. Tillagan er byggð á grundvelli gífurlega mikillar vinnu og upplýsingaöflunar fjölda færustu sérfræðinga, hvers á sínu sviði. Horft var á virkjanakostina út frá mismunandi sjónarhornum orkunýtingar, náttúruverndar, efnahags- og samfélagslegra áhrifa, ferðamennsku og verndunar fornleifa og menningarminja. Hvorki þrýstingur orkufyrirtækja né ýtrustu kröfur verndarsinna réðu niðurstöðunni, heldur byggist hún á köldu og yfirveguðu faglegu mati. Útkoman varð sú forgangsröðun, sem þingsályktunartillagan er byggð á. Á næstu vikum gefst almenningi, félagasamtökum og hagsmunaaðilum kostur á að segja sitt álit á þingsályktunartillögunni. Alþingi tekur hana síðan til meðferðar og er markmiðið að afgreiða hana fyrir 1. febrúar á næsta ári. Miklu skiptir að sú tímaáætlun haldi, meðal annars til að orkufyrirtækin geti sett á fullt framkvæmdir við virkjanakosti sem ákveðið verður að ráðast í. Að sjálfsögðu verða ekki allir sammála forgangsröðun sérfræðinganna og flokkuninni sem nú er gert ráð fyrir. Í Fréttablaðinu á laugardag kom fram að líkast til yrðu virkjanir í neðri hluta Þjórsár, sem gert er ráð fyrir að verði ráðizt í samkvæmt tillögunni, erfiðasta úrlausnarefnið á Alþingi. Innan þingflokks Vinstri grænna mun ríkja talsverð andstaða við þær virkjanir. Á því máli eru margar hliðar. Í Fréttablaðinu í dag kemur til dæmis fram að talsmenn verndunar villtra fiskstofna hafa miklar áhyggjur af áhrifum Þjórsárvirkjana á einn stærsta laxastofn landsins og sjóbirting í fljótinu. Aðalatriðið er að þegar tekin verður afstaða til virkjana í Þjórsá verði það á sömu faglegu forsendum og gerð rammaáætlunarinnar byggðist á, þar sem mismunandi sjónarmið eru vandlega vegin og metin, en umræðan fari ekki aftur í far pólitískra upphrópana. Orð Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingmanns VG, frá því í vantraustsumræðum í vor, um að forða yrði Þjórsá frá „stóriðjuöflum", „braski" og „einkavinavæðingu" gefa reyndar ekki alltof góða von um þau vönduðu vinnubrögð.