Íslenski boltinn

Kristín Ýr með fimmu í fyrsta leik - Fylkir vann Fjölni 13-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Ýr Bjarnadóttir.
Kristín Ýr Bjarnadóttir.
Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði fimm mörk í fyrsta mótsleik Íslands- og bikarmeistara Vals á árinu 2011. Valur vann 8-0 sigur á Þrótti sem eru nýliðar í Pepsi-deild kvenna næsta sumar. Þetta var fyrsti leikur Valsliðsins undir stjórn Gunnars Rafns Borgþórssonar.

Valsliðið lék án þeirra Dóru Maríu Lárusdóttur, Katrínu Jónsdóttur og Maríu B. Ágústsdóttur sem eru allar farnar út í atvinnumennsku. Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir stóð í markinu og Málfríður Erna Sigurðardóttir bar fyrirliðabandið.

Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði fyrsta markið á áttundu mínútu og Rakel Logadóttir skoraði annað markið á 37. mínútu. Katrín Gylfadóttir og Elín Metta Jensen komu Val í 4-0 áður en Kristín Ýr bætti við fjórum mörkum á síðustu tuttugu mínútnum. Síðasta mark Kristínar kom úr vítaspyrnu.

Fylkir vann 13-0 sigur á Fjölni í hinum leik Reykjavíkurmótsins í gær þar sem Anna Björg Björnsdóttir skoraði fernu og Fjóla Dröfn Friðriksdóttir var með þrennu. Hin mörkin skoruðu Fjolla Shala (2), Lidija Stojkanovic, Eyrún Rakel Agnarsdóttir, Hanna Jóhannsdóttir og Íris Dóra Snorradóttir.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá fótbolti.net






Fleiri fréttir

Sjá meira


×