Innlent

Ómar vill ekki gefa upp hvort hann taki sæti í stjórnlagaráði

Ómar Ragnarsson vill ekki gefa það upp hvort hann ætli að taka sæti í stjórnlagaráði.
Ómar Ragnarsson vill ekki gefa það upp hvort hann ætli að taka sæti í stjórnlagaráði.
„Það var mjög gott fyrir okkur öll að fara yfir málin,“ segir Ómar Ragnarsson, en hann sat í morgun óformlegan fund stjórnlagaráðs.

Stjórnlagaþingskosningarnar voru ógiltar af Hæstarétti og samþykkti Alþingi á fimmtudaginn tillögu um skipun stjórnlagaráðs. Þeir sem kosnir voru eiga því að taka sæti í stjórnlagaráðinu samkvæmt tillögu Alþingis. Inga Lind Karlsdóttir, er eini kjörni fulltrúinn, sem hefur gefið það út að hún ætli ekki að taka sæti í ráðinu.

Átján af þeim tuttugu og fimm kjörnu fulltrúum mættu á fundinn í morgun sem stóð yfir í einn og hálfan tíma. Ómar segir að fundurinn hafi verið trúnaðarfundur og vill ekki gefa upp hvort hann ætli að taka sæti í ráðinu. „Það kemur bara í ljós, ég mun ekki gefa neitt út um það fyrr en ég er búinn að senda svar við bréfinu sem ég fékk,“ segir Ómar en allir fulltrúarnir fengu bréf þar sem þeir áttu að svara því hvort þeir hygðust taka sæti í ráðinu. Þeir hafa frest fram á þriðjudagskvöld til að svara því.

Hann segir að hver og einn muni svara fyrir sig hvort þeir hyggist taka sæti í ráðinu en það hafi verið gott að hitta fulltrúana í morgun. „Við erum búin að hittast svo oft og jafnvel þó að enginn tæki sæti í ráðinu erum við orðin vinahópur,“ segir Ómar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×