Innlent

Myndi ekki slá hendinni á móti djammi með Charlie Sheen

Boði Logason skrifar
„Þetta væri fínt tækifæri til að flýja veruleikann á Íslandi og upplifa eitthvað nýtt," segir fyrrum útvarps- og blaðamaðurinn Atli Már Gylfason sem er kominn í lotu númer þrjú um að verða næsti aðstoðarmaður leikarans Charlie Sheen.

Það má segja að fjölmiðlafárið í kringum leikarann á síðustu vikum hefur verið ótrúlegt. Hann var rekinn úr þáttunum Two And A Half Man og hefur leikarinn sent frá sér mörg myndbönd og yfirlýsingar þar sem hann hraunar yfir stjórnendur þáttarins.

Leikarinn auglýsti svo fyrir nokkrum vikum eftir aðstoðarmanni og gátu einstaklingar um allan heim sótt um. Atli var einn þeirra og í fyrstu lotu voru 75 þúsund manns sem stóðu eftir. Nú er svo komið að 250 eru eftir og er Atli Már einn af þeim.

Fimmtíu í lotu fjögur

Hópurinn sem eftir er fékk það verkefni að svara einni af þremur spurningum sem Sheen lagði fyrir þau. Það ræðst því á næstu vikum hver fær starfið. „Ekki það að ég viti það fyrir víst hversu margir hellast úr lestinni í næstu umferð en slúðrið á vefnum bendir til þess að aðeins fimmtíu verða eftir í fjórðu umferðinni."

Atli Már valdi að svara spurningu sem snýr að því að ef hann væri fulltrúi í hjálparsamtökum, hvernig myndi hann nýta miðla á borð við Facebook og Twitter, til að vekja athygli á náttúruhamförum og hvernig hann myndi hann safna peningum fyrir þau.

Þátttakendurnir áttu að útbúa tveggja mínútna myndband og hefur Atli Már tekið upp myndband í stofunni heima hjá sér. „Ég ætlaði að taka þetta uppi á Jökulsárlóni en það klikkaði á síðustu stundu þannig að ég lét sófann heima duga í þetta skiptið. Mér skilst að Sheen hati George W. Bush, þannig að hann fékk að fljóta með í myndskeiðinu með íslenskan fána uppi í sér," segir hann.

Hjálparstörf tengjast tilfinningum fólks

„Hugmyndin mín gekk út á það að fjalla um hamfarirnar á persónulegu nótum, það er að segja að búa strax til YouTube myndband þar sem fjallað er um einstakling eða fjölskyldu sem hefur orðið illa úti vegna þessara hamfara sem sagt er frá í spurningunni. Með þessu er áhorfandinn að tengjast beint fórnarlambi hamfaranna í stað þess að horfa á yfirlitsmynd sem sýnir milljónir húsa í rúst," segir Atli og bætir við að hjálparstöf og framlög til þeirra tengjast oft tilfinningum fólks og vill hann því reyna að höfða beint til þeirra. „Hvað varðar að afla fjár þá datt mér í hug að stofna vefsíðu sem ber til dæmis heitið click2save.com. Með hjálp Hollywoodstjarna myndum við fá stórfyrirtæki í þetta með okkur á borð við Coke og McDonalds svo eitthvað sé nefnt," segir hann.

Og hann er hóflega bjartsýnn að fá starfið. „Ég get engan veginn ímyndað mér hvernig það er að vakna á heimi Charlie Sheen einn morguninn, fá sér kaffi með konunum hans tveimur og fara að vinna inni í stofu. Þetta er svo súrealískt að það hálfa væri nóg."

Væri alveg til í að fá Snoop í kaffi

En hvernig aðstoðarmaður yrði hann, rólegur og yfirvegaður eða djammari eins og Sheen? „Ég myndi reyna að halda mér svona þokkalega vinnufærum. Ég myndi samt ekki slá hendinni á móti því ef kallinn vill fá mig út á lífið eins og eitt kvöld," segir hann.

„Þetta er bókstaflega „once in a lifetime" tækifæri og þetta er launað starf þrátt fyrir að vera lærlingsstaða og vinnustaðurinn er heimilið hans. Hann er með heilt teymi á bakvið sig og nú síðast í gær var Snoop heima hjá honum að búa til lag með honum, það er ekkert leiðinlegt. Ég er til í að fá Snoop í kaffi hvenær sem er."

„Ég hvet alla til að horfa á myndbandið. Því fleiri sem horfa því líklegri er ég til að standa upp úr," segir kappinn hress að lokum.

Hægt er að horfa á myndbandið sem Atli Már sendi Charlie Sheen hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×