Innlent

Konan vissi ekki um fíkniefnin

Tuttugu og tveggja ára gömul kona sem handtekin var í Leifsstöð á miðvikudag í tengslum við innflutning á um 36 þúsund E-töflum, segist ekkert hafa vitað um efnin. Þau voru falin í fölskum botni ferðatösku en þetta mun vera mesta magn E-taflna sem reynt hefur verið að smygla hingað til lands.

Konan var að koma með flugi frá Las Palmas á Kanaríeyjum þar sem hún hafði dvalið í viku ásamt tuttugu og þriggja ára gömlum manni sem einnig var handtekin við komuna til landsins. Í fölskum botni ferðatösku sem maðurinn var með fundust töflurnar 36 þúsund ásamt rúmlega 4 þúsund skömmtum af ofskynjunarlyfinu LSD.

Í kjölfarið fór lögregla fram á tveggja vikna gæsluvarðhald yfir fólkinu sem dómari féllst á í tilviki mannsins, en konan var einungis úrskurðuð í viku varðhald. Það virðist benda til þess að hlutur konunnar sé talinn minni, en eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur hún alfarið neitað að hafa vitað nokkuð um efnin.

Þau eru ekki par en þekktust og fóru saman í ferðina en ekki er talið algengt að fíkniefnum sé smyglað hingað til lands frá Kanaríeyjum. Þau hafa verið yfirheyrð reglulega frá handtöku og hafa yfirheyrslur gengið ágætlega.

Konan hefur ekki komið við sögu lögreglu af neinu viti áður, en maðurinn hefur tengst afbrotum meðal annars fíkniefnamálum. Lögregla telur allar líkur á að fólkið sé ekki eigendur efnanna, þau séu einungis burðardýr, og reynir hún nú að komast að því hver sé hinn raunverulegi eigandi.

Rannsókn er tiltölulega stutt á veg komin en gæsluvarðhald yfir konunni rennur út í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×