Innlent

Ingó í Veðurguðunum: Einn af þeim sem allir kunnu vel við

Ingó í Veðurguðunum
Ingó í Veðurguðunum
„Hann var ótrúlega frábær náungi, rosalega glaðlegur og vinalegur og alltaf í góðu skapi," segir Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó í Veðurguðunum, vinur Sigurjóns Brink sem var bráðkvaddur á heimili sínu í gær.

Þeir léku saman í söngleiknum Buddy Holly en þar lék Sigurjón Ritchie Valens. Ingó segir að öllum hafi líkað vel við Sigurjón. „Eins og öllum fannst sem tóku þátt í þessari leiksýningu þá var hann frábær í alla staði. Maður hefði alltaf sagt það, ekkert bara í dag út af þessum hræðilega atburði heldur líka fyrir tveimur mánuðum eða ári síðan. Hann gaf mikið af sér til þeirra sem voru í kringum hann og var mjög gefandi og góður strákur."

Ingó og Sigurjón kynntust í gegnum tónlistarbransann en þegar þeir hófu að leika saman í Buddy Holly urðu þeir fínir vinir. „Ég hef alltaf kunnað vel við hann, hann er einn af þeim sem allir kunnu vel við," segir Ingó og heldur áfram. „Hann var flottur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur, svo var hann mjög flottur leikari líka, hann var mikið í öllu og gerði það vel."

Stofnuð hefur verið minningarsíða um Sigurjón á Facebook og hægt er að nálgast hana hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×