Jólin koma Guðmundur Andri Thorsson skrifar 19. desember 2011 09:15 Hinn sanni andi jólanna: það hvarflar stundum að manni að það sé ekki ást og friður á jörðu milli manna og ekki heldur ljósið í augum barnanna, ekki heldur sjálft Jesúbarnið og hvernig það minnir okkur á undrið mikla sem sérhvert nýkviknað líf er ævinlega - og ekki einu sinni að kaupa, jafn kært og það er nú þessari vesalings kaupærðu þjóð að standa í slíku. Hinn sanni andi jólanna hér á landi snýst um dugnað og vinnusemi. Að vera að frá morgni til kvölds. Að „vera búinn að öllu“ - helst á undan öllum öðrum - vera fyrstur í mark í jólakapphlaupinu. Til er fólk sem kaupir jólagjafirnar í ágúst, pakkar þeim inn í september, kaupir jólatréð í október, bakar sortirnar sautján í nóvember, setur upp allar seríur og skreytir jólatréð 1. desember... Mér kæmi ekki á óvart þó að ég heyrði um fólk sem héldi aðfangadagskvöld snemma í desember - bara til að vera „búið að öllu“.Stingum af Það er gott að fólk geti brugðist við myrkri og kulda með eljusemi við að vekja ljós og yl en það er samt engin ein rétt hegðun til í desember, þetta þarf ekkert að vera svona, þetta hentar ekki öllum þrátt fyrir ríkjandi samfélagslega kröfu um óbilandi jóladugnað. Því að sé einhver tími vel til þess fallinn að vera latur þá er það myrkasta skammdegið. Maður ætti að kúra í kör sinni í desember, liggja og lesa, kveikja á kertum, hlusta á Bach, hreyfa sig hægt... Maula á kökum, drekka te en ekki mikið áfengi og alls ekki þennan bólfótans jólabjór sem fjölmiðlar eru daglega að telja okkur trú um að seljist svo mikið og sé svo vinsæll... Leyfa rykinu að vaxa inni í skáp og á hillum en yrkja órímuð ljóð um lífið og mennina, mála drungalegar myndir, gutla á falskan gítar og syngja Leonard Cohen, horfa á Fanny og Alexander, fara í langar gönguferðir til að heyra fótatakið marra í snjónum, sitja með hendur í skauti og finna sér fótfestu og stað í myrkrinu í stað þess að streitast við að berjast gegn því, fara upp á háaloft og skoða gamla sólstóla og fletta gömlum fjölskyldualbúmum og grufla í því af hverju hann Óskar frændi hafi verið svona eins og hann var... hugsa um Guð og engan Guð, líta til fugla himinsins, velta fyrir sér Jörðinni og hvað megi verða henni til bjargar, faðma tré... Safna skeggi, setja á sig ilmvatn, fá sér hund. Læra að prjóna. Engin iðja á betur við skammdegið en að sitja og prjóna og hlusta á einhvern lesa upp úr bókinni Hrakningar og heiðarvegir eða Hvarf séra Odds á Miklabæ eftir Einar Ben. Dreyma dagdrauma um að vera forseti eða annálað góðmenni. Geispa. ...Vera angurvær og sein til svars. Brosa hægt og dauflega og bara að einhverju fyndnu. Allt þetta má alveg líka. Hún er svo sterk og þrálát krafan um dugnað og vinnusemi á aðventunni - og alla þessa yfirdrifnu kæti. Verum endilega glöð en þurfum við að vera svona ofboðslega glöð... Svona yfirvættis hress... Þegar maður kveikir á útvarpi dynja á manni auglýsingar og jólalög sem vinna saman að því að magna upp kröfu um maníska vinnusemi og glaðværð sem hjá viðkvæmu fólki getur endað illa. Lögin hljóma eins og fyrirskipanir um tilhlökkun, auglýsingarnar keyra þig áfram eins og svipa. Og á meðan heldur bara áfram að dimma. Jólin koma Það er engin ein rétt leið til að halda jól. Það þarf ekki hver sokkur á heimilinu að vera paraður við sinn systursokk. Eru óhrein föt í hrúgu? Hendið yfir þau rúmteppi. Er drasl? Slökkvið ljósin en kveikið á lítilli seríu og það hverfur. Maður má ekki leggja slíka ofuráherslu á að vera búinn að öllu fyrir jól að að maður sé búinn á öllu þegar þau koma. Því að þau koma. Klukkan sex, þegar klukkurnar hringja í útvarpinu, koma jólin og þá gerist oft eitthvað sérstakt. Það er sjálft undrið. Undarleg kyrrð breiðist þá yfir tilveruna, hvernig sem annars kann að vera ástatt hjá og fólki. Hvernig sem jólahaldi okkar er háttað og hvernig sem átrúnaði okkar er háttað - hvort sem við trúum á fæðingu Frelsarans á þessari stundu - og frelsun mannanna - eða látum duga að fagna því undri sem rísandi sól er með vissu um að náttúran vaknar á ný og við verðum líka frjáls einn góðan veðurdag - þá fylgir sjálfum jólunum djúp og hljóðlát gleði. Það er gleðin yfir lífinu, gleðin yfir því að vera til - gleðin yfir vitundinni um það að vera til. Og tilheyra. Það getur staðið ýmislega á og hjá sumum er allt í voða á jólunum; áfengissjúklingar og aðstandendur áfengissjúklinga eiga sérstaklega erfitt á þessari stundu þegar allt á að vera rétt og fullkomið en er það svo átakanlega ekki. En jólin koma nú samt. Þau koma með sinn boðskap: að lífið sigri dauðann, ljósið sigri myrkrið og bráðum komi birtan. Rússnesk-bandaríski höfundurinn Vladimir Nabokov orðaði þennan boðskap í fyrirlestri sem hann flutti um samlanda sinn og kollega, Anton Tsékoff; hann segir að verk Tsékoff séu vitnisburður um lögmálið sem þrátt fyrir allt ríki í lífinu hér á Jörðu: Survival of the Weakest - sá veikasti lifir af. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Tafir á réttlæti: Opin gagnrýni á kærunefnd jafnréttismála og eftirlit jafnréttisráðherra Erna Guðmundsdóttir Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Halldór 04.01.2025 Halldór Ekki meira bull, takk! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun Forseti ASÍ á skautum Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Isavia sóar fjármagni í eigin ímynd Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Vöruhúsið í Álfabakka - í boði hvers? Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera vín? Guðmundur Stefán Gunnarsson Skoðun Ísland undaskilið alþjóðlegum kolefniskvóta Ólafur Ágúst Hraundal Skoðun
Hinn sanni andi jólanna: það hvarflar stundum að manni að það sé ekki ást og friður á jörðu milli manna og ekki heldur ljósið í augum barnanna, ekki heldur sjálft Jesúbarnið og hvernig það minnir okkur á undrið mikla sem sérhvert nýkviknað líf er ævinlega - og ekki einu sinni að kaupa, jafn kært og það er nú þessari vesalings kaupærðu þjóð að standa í slíku. Hinn sanni andi jólanna hér á landi snýst um dugnað og vinnusemi. Að vera að frá morgni til kvölds. Að „vera búinn að öllu“ - helst á undan öllum öðrum - vera fyrstur í mark í jólakapphlaupinu. Til er fólk sem kaupir jólagjafirnar í ágúst, pakkar þeim inn í september, kaupir jólatréð í október, bakar sortirnar sautján í nóvember, setur upp allar seríur og skreytir jólatréð 1. desember... Mér kæmi ekki á óvart þó að ég heyrði um fólk sem héldi aðfangadagskvöld snemma í desember - bara til að vera „búið að öllu“.Stingum af Það er gott að fólk geti brugðist við myrkri og kulda með eljusemi við að vekja ljós og yl en það er samt engin ein rétt hegðun til í desember, þetta þarf ekkert að vera svona, þetta hentar ekki öllum þrátt fyrir ríkjandi samfélagslega kröfu um óbilandi jóladugnað. Því að sé einhver tími vel til þess fallinn að vera latur þá er það myrkasta skammdegið. Maður ætti að kúra í kör sinni í desember, liggja og lesa, kveikja á kertum, hlusta á Bach, hreyfa sig hægt... Maula á kökum, drekka te en ekki mikið áfengi og alls ekki þennan bólfótans jólabjór sem fjölmiðlar eru daglega að telja okkur trú um að seljist svo mikið og sé svo vinsæll... Leyfa rykinu að vaxa inni í skáp og á hillum en yrkja órímuð ljóð um lífið og mennina, mála drungalegar myndir, gutla á falskan gítar og syngja Leonard Cohen, horfa á Fanny og Alexander, fara í langar gönguferðir til að heyra fótatakið marra í snjónum, sitja með hendur í skauti og finna sér fótfestu og stað í myrkrinu í stað þess að streitast við að berjast gegn því, fara upp á háaloft og skoða gamla sólstóla og fletta gömlum fjölskyldualbúmum og grufla í því af hverju hann Óskar frændi hafi verið svona eins og hann var... hugsa um Guð og engan Guð, líta til fugla himinsins, velta fyrir sér Jörðinni og hvað megi verða henni til bjargar, faðma tré... Safna skeggi, setja á sig ilmvatn, fá sér hund. Læra að prjóna. Engin iðja á betur við skammdegið en að sitja og prjóna og hlusta á einhvern lesa upp úr bókinni Hrakningar og heiðarvegir eða Hvarf séra Odds á Miklabæ eftir Einar Ben. Dreyma dagdrauma um að vera forseti eða annálað góðmenni. Geispa. ...Vera angurvær og sein til svars. Brosa hægt og dauflega og bara að einhverju fyndnu. Allt þetta má alveg líka. Hún er svo sterk og þrálát krafan um dugnað og vinnusemi á aðventunni - og alla þessa yfirdrifnu kæti. Verum endilega glöð en þurfum við að vera svona ofboðslega glöð... Svona yfirvættis hress... Þegar maður kveikir á útvarpi dynja á manni auglýsingar og jólalög sem vinna saman að því að magna upp kröfu um maníska vinnusemi og glaðværð sem hjá viðkvæmu fólki getur endað illa. Lögin hljóma eins og fyrirskipanir um tilhlökkun, auglýsingarnar keyra þig áfram eins og svipa. Og á meðan heldur bara áfram að dimma. Jólin koma Það er engin ein rétt leið til að halda jól. Það þarf ekki hver sokkur á heimilinu að vera paraður við sinn systursokk. Eru óhrein föt í hrúgu? Hendið yfir þau rúmteppi. Er drasl? Slökkvið ljósin en kveikið á lítilli seríu og það hverfur. Maður má ekki leggja slíka ofuráherslu á að vera búinn að öllu fyrir jól að að maður sé búinn á öllu þegar þau koma. Því að þau koma. Klukkan sex, þegar klukkurnar hringja í útvarpinu, koma jólin og þá gerist oft eitthvað sérstakt. Það er sjálft undrið. Undarleg kyrrð breiðist þá yfir tilveruna, hvernig sem annars kann að vera ástatt hjá og fólki. Hvernig sem jólahaldi okkar er háttað og hvernig sem átrúnaði okkar er háttað - hvort sem við trúum á fæðingu Frelsarans á þessari stundu - og frelsun mannanna - eða látum duga að fagna því undri sem rísandi sól er með vissu um að náttúran vaknar á ný og við verðum líka frjáls einn góðan veðurdag - þá fylgir sjálfum jólunum djúp og hljóðlát gleði. Það er gleðin yfir lífinu, gleðin yfir því að vera til - gleðin yfir vitundinni um það að vera til. Og tilheyra. Það getur staðið ýmislega á og hjá sumum er allt í voða á jólunum; áfengissjúklingar og aðstandendur áfengissjúklinga eiga sérstaklega erfitt á þessari stundu þegar allt á að vera rétt og fullkomið en er það svo átakanlega ekki. En jólin koma nú samt. Þau koma með sinn boðskap: að lífið sigri dauðann, ljósið sigri myrkrið og bráðum komi birtan. Rússnesk-bandaríski höfundurinn Vladimir Nabokov orðaði þennan boðskap í fyrirlestri sem hann flutti um samlanda sinn og kollega, Anton Tsékoff; hann segir að verk Tsékoff séu vitnisburður um lögmálið sem þrátt fyrir allt ríki í lífinu hér á Jörðu: Survival of the Weakest - sá veikasti lifir af.
Tafir á réttlæti: Opin gagnrýni á kærunefnd jafnréttismála og eftirlit jafnréttisráðherra Erna Guðmundsdóttir Skoðun
Tafir á réttlæti: Opin gagnrýni á kærunefnd jafnréttismála og eftirlit jafnréttisráðherra Erna Guðmundsdóttir Skoðun