
Sigmar segist hafa verið kominn á endastöð á ferli sínum sem Eurovision-kynnir og hann segist ekki eiga eftir að sakna alls umstangsins og vinnunnar sem fylgi keppninni. „Nei, ég ætla bara að njóta þess að horfa á hana í sjónvarpinu og pæla aðeins í lögunum.“
Útvarpskonunnni Hrafnhildi Halldórsdóttur hefur verið falið að taka við starfi Sigmars en hún hefur farið í nokkrar Eurovision-keppnir á vegum Rásar 2. Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri RÚV, segir óneitanlega eftirsjá að Sigmari en er jafn viss um að Hrafnhildur eigi eftir að fylla skarð hans með miklum bravúr.
„Ég lærði í Austurríki og kann því þýsku og var því mjög spennt fyrir þessu verkefni,“ segir Hrafnhildur í samtali við Fréttablaðið. Hún hefur reyndar farið tvívegis út í Eurovision fyrir Rás 2 en aldrei sem þulur.
Sigmar segir margt standa upp úr á sínum Eurovision-ferli, hans fyrsta keppni hafi til að mynda verið með Silvíu Nótt í Grikklandi, árið eftir hafi samsæriskenningarnar um austurblokkina víðfrægu fengið byr undir báða vængi og svo megi ekki gleyma silfurævintýri Jóhönnu Guðrúnar Jónsdóttur í Moskvu.
„Maður hefur eiginlega upplifað allar tilfinningarnar.“- fgg
