Innlent

Menn ættu að hugsa um hvað þeir segja í stjórnarandstöðu

Sigurður Ingi Jóhannson
Sigurður Ingi Jóhannson Samsett mynd/Vísir.is
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag að mikill hávaði hafi myndast á Alþingi og í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum þegar fjallað var um að íslenskt flugfélag væri að fljúga með hergögn milli landa. Í fréttum Stöðvar 2 í gær var sagt frá því að íslenska flugfélagið Atlanta væri að fljúga með hergögn til Afganistan.

Hann sagði að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hafi leyft Atlanta að fljúga með hergögnin og að menn, sem eru í stjórnarstólum, ættu að hugsa um hvað þeir segja þegar þeir eru í stjórnarandstöðu því fyrir nokkrum árum hafi svipað mál komið upp og þá hafi mikill hávaði myndast í þinginu og í fjölmiðlum.

„Menn hafa verið að rifja upp orð hvers annars síðastliðin tíu og tuttugu ár. Það gerist oft þegar menn hafa skipt um stjórnarstóla og hættir í stjórnarandstöðu, að þá skipta menn gjarnan um skoðun líka. [...] Ég held því nú fullum fetum fram að stjórnaranstaðan hér á árum áður hafi verið full af upphrópunum og hávaðamerkjum yfir hinu og þessu, mun meira en stjórnarandstaðan í dag. Málefnalegri umræða sé með meiri hætti en maður sá á árum áður," sagði Sigurður Ingi og vék því næst af flutningum Atlanta.

„Því langar mig, kannski af svolitlum stráksskap, að koma hér upp og benda þingheimi á að í fréttum fyrir nokkrum dögum var fjallað um að íslenskt flugfélag væri að fljúga með hergögn milli landa og meðal annars til stríðsátaka í Afganistan. Þetta gerðist með leyfi núverandi innanríkisráðherra (innsk. blm. Ögmundar Jónassonar). Það kom upp svipað mál hér upp fyrir nokkrum árum og þá var þvílíkur hávaði hér í þinginu og í fjölmiðlum sem var svolítið sérstakt á að horfa. Það er gott að rifja það upp að þegar menn lenda í stjórnarstólum ættu þeir kannski að hugsa um hvað þeir segja í stjórnarandstöðu," sagði Sigurður Ingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×