Innlent

Játuðu fyrir dómi að hafa hreinsað út úr íbúð

Tvær konur játuðu í gær fyrir Héraðsdómi Reykjaness að hafa hreinsað allt innbú út úr íbúð áður hún var sett á uppboð. Íbúðin var veðsett fyrir 30 milljónir. Tvö mál voru þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í gær þar sem ákært er fyrir sömu sakir.

Konurnar, sem bjuggu í Garði, voru ákærðar fyrir skilasvik. Málið kom upp í nóvember 2008. Í ákærunni, sem gefin er út af lögreglustjóranum á Suðurnesjum, segir að konurnar hafi fjarlægt allar innihurðir ásamt körmum úr íbúðinni. Baðinnréttingar og eldhúsinnréttingar hafi verið teknar auk þess sem rafmagnstenglar hafi verið fjarlægðir. Þetta mun hafa verið gert án heimildar veðhafans sem í þessu tilviki var Landsbanki Íslands.

Íbúðin var veðsett fyrir ríflega 31 milljón krónur og taldi bankinn verðmæti þeirra hluta sem fjarlægðir voru úr íbúðinni nema um fimm og hálfri milljón. Eignin var seld nauðungarsölu þann 5. nóvember 2008 og var bankinn kaupandi hennar.

Konurnar tvær játuðu sök fyrir dómi og verður því ekki aðalmeðferð í málinu. Annað mál af sama toga var hins vegar einnig tekið fyrir í gær. Það mál kom einnig upp á Suðurnesjum. Ungt par í Sandgerði var ákært fyrir að hafa fjarlægt ofn úr stofu, sjö ofnkrana, baðinnréttingar, 150 fermetra hellulögn, sólpall og heitan pott, áður en eignin var sett á uppboð. Parið neitar sök og segist hafa staðið í endurbótum á húsinu og mun því málið fara í aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Íslandsbanki telur andvirði þess sem parið fjarlægði úr eigninni nema um 5 milljónum. Bankinn keypti eignina á nauðungarsölu í apríl 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×