Innlent

Segir sveitarfélögin hvetja til verkfallsbrota

"Það er eins og að skvetta olíu á eldinn að halda því fram að hægt sé að hafa leikskóladeildir opnar þótt deildarstjórinn sé í verkfalli" Þetta segir lögfræðingur kennarasambandsins sem telur sveitarfélögin hvetja til verkfallsbrota í kjaradeilu leikskólakennara.

Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur Kennarasambands Íslands, sem Félag leikskólakennara heyrir undir, er ósammála þeirri túlkun forsvarsmanna Sambands sveitarfélaga að leikskóladeildir geti starfað áfram ef deildarstjórinn er í verkfalli og ítrekar að Félag leikskólakennara ætli ekki að víkja frá sinni túlkun.

Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaga, sagði í samtali við fréttastofu í dag að leikskólastjórar eigi að sjá til að allar deildir séu starfandi á meðan verkfalli stendur, og nýta til þess það starfsfólk sem ekki er í verkfalli. Hún baðst undan sjónvarpsviðtali, þar sem enn er verið að skoða alla fleti á málinu. Hún sagðist þó ekki líta á það sem verkfallsbrot ef sveitarfélögin framfylgja túlkun sinni. Það gerir Erna hinsvegar.

Síðasti samningafundur í deilunni var haldinn í gær en ekki hefur verið boðað til annars fundar. Að öllu óbreyttu leggja kennarar í félagi Leikskólakennara niður vinnu eftir sex daga og munu aðgerðirnar hafa áhrif á 240 leikskóla sem sveitarfélögin reka en í þeim eru rúmlega 16.000 börn frá rúmlega 14.000 heimilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×