Innlent

Frásagnir vitna benda til spyrnukeppni

Frásagnir vitna benda til að ökumaður í bílslysi við Geirsgötu á föstudag hafi verið að keppa í spyrnu við annan bíl þegar hann hafnaði á húsvegg. Talsmaður umferðarstofu kallar eftir viðhorfsbreytingu þegar kemur að áhættuhegðun í umferðinni.

Lýsingar vitna eru á þann veg að bíllinn sem hafnaði á húsvegg við Geirsgötu á föstudag hafi tekið af stað með miklum hraða á sama tíma og annar bíll á ljósunum við mót Lækjargötu og Kalkofnsvegar.

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, staðfestir að frásögn þeirra bendi til að bílarnir hafi verið að reyna með sér í spyrnu, en hinn bíllinn hafi hægt á sér meðan sá sem hafnaði á veggnum hafi haldið áfram á miklum hraða.

Geir Jón segir grun leika á um að of hraður akstur hafi átt þátt í slysinu, en rannsókn málsins er ekki lokið. Tæknideild lögreglu vinnur nú að því að reikna út hraða bílsins, en lögregla hefur einnig lýst eftir tveimur ökumönnum sem urðu vitni að slysinu.

Sautján ára piltur, sem var farþegi í bílnum, lést á sunnudag vegna meiðsla sem hann hlaut er bíllinn hafnaði á veggnum.

Fjögur ár eru síðan að bíll hafnaði á húsnæði Hamborgarabúllunnar eftir að ökumaður missti stjórn á bíl sínum á svipuðum slóðum, en lögregla kannast við að ökumenn komi saman og iðki hraðakstur út við Granda, sem er nálægt slysstaðnum.

Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðastofu, segir að þó það sé erfitt fyrir aðstandendur þurfi að skoða slys á borð við þetta í kjölinn til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Hann treystir sér þó ekki til að tala um sérstaklega um slysið meðan rannsókn lögreglu stendur enn yfir, en kallar eftir almennri viðhorfsbreytingu til áhættuhegðunar í umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×