Viðskipti innlent

Landsbankaleiðin til góðs fyrir hluthafa

Forstjóri Bankasýslu ríkisins segist ekki hafa ástæðu til að efast um að Landsbankaleiðin verði til góðs fyrir hluthafa bankans, en niðurfærsla á eignum bankans vegna skuldaúrræðanna nemur milljörðum.

Landsbankinn kynnti í lok maí ýmsar aðgerðir til að lækka skuldir viðskiptavina sinna, en niðurfærslurnar vegna úrræðanna gætu numið tugum milljarða króna.

Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir að sýslunni hafi verið gert viðvart um þessi úrræði Landsbankans kvöldið áður en þau voru kynnt almenningi. Landsbankinn er í meirihlutaeigu ríkisins, en það er bankasýslan sem fer með eignarhlutinn.

Elín segir að ákvörðunin um úrræði bankans rúmist innan þeirra heimilda sem stjórn hans hefur til ákvarðanatöku, og því hafi hluthafar ekki átt sérstaka heimtingu á að koma að ákvörðuninni. Landsbankaleiðin hafi þó verið rædd í stjórn Bankasýslunnar.

„Þetta er eitt af þeim málum sem við töldum ástæðu til að taka sérstaklega fyrir og ræða á stjórnarfundi," segir Elín. „Það hefur verið gert."

Elín segir það niðurstöðu fundarins að skuldaniðurfærslur bankans hafi verið ábyrg meðferð á eign hluthafa. "Við höfum ekki ástæðu til að efast um mat stjórnar, stjórnenda og sérfræðinga bankans um að þetta verði til góðs fyrir Landsbankann, og þar með hluthafana, til lengri tíma litið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×