Innlent

Bréfberinn sleppti að bera út bréfin

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Um það bil þrjú hundruð manns í Grafarvogi fengu póst stimplaðan í sumar afhentan nú í vikunni ásamt afsökunarbréfi frá Íslandspósti. Starfsmaður Íslandspósts, sem nú hefur verið sagt upp, hafði sleppt því að bera út bréfin.

Þegar póstburðarmaðanninum var sagt upp í byrjun maí kom hann póstinum fyrir í bílskotti en bréfin fundust ekki fyrr en bíllinn var seldur nú í desember. Nýr eigandi bílsins ætlaði að koma einhverjum vörum fyrir í skottinu á nýja bílnum sínum en fann þar rúmlega eitt þúsund bréf. Hann tilkynnti þá Íslandspósti um bréfin sem kom þeim svo til skila.

Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts, segir atvik sem þessi afar sjaldgæf.

„Við erum með um fjögur hundruð bréfbera sem ganga á heimili landsins á hverjum degi og standa sig mjög vel í starfi. Þetta er aljgör undantekning," segir Ágústa Hrund.

Íslandspóstur hyggst kæra póstburðarmanninn og fara fram á bætur. Ágústa veit þó ekki til þess að bréfberanum hafi tekist að valda nokkrum alvarlegu tjóni með uppátæki sínu.

„Við höfum ekki upplýsingar um það," segir Ágústa Hrund að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×