Innlent

Fór jafn hratt og Boeing 737 þota í flugtaki

Boeing 737 þota í flugtaki.
Boeing 737 þota í flugtaki. Mynd/AP
Hraðinn sem bifhjólamaður mældist á á Garðsvegi á Suðurnesjum um klukkan hálf níu í gærkvöld er einhver mesti hraði sem mælst hefur á ökutæki hérlendis til þessa, og er hátt í flugtakshraða Boeing 737 þotu.

Lögreglumenn mældu bifhjólamanninn á 237 kílómetra hraða áður en hann hvarf þeim sjónum á augabragði.

Samkvæmt mælingum var ökuþórinn enn að auka hraðann þegar hann þaut fram hjá lögreglumönnunum og gerðu þeir enga tilraun til að elta hann.

Maðurinn er enn ófundinn og skoðar lögregla nú upptökur úr nýrri hraðamyndavél á Garðsveginum.

Fyrir tveimur árum birtist á netinu upptaka úr vél, sem bifhjólamaður spennti framan á sig, og sást nálin í hraðamælinum fara langt yfir 200 en myndbandið var tekið á sömu slóðum og hraðakskturinn í gærkvöldi. Tiltekinn maður lá þá undir grun en sönnunargögn reyndust ekki nægilega haldgóð til að sakfella hann.

Flugtakshraði Boeing 737 farþegaþotu er 250 kílómetrar á klukkustund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×