Innlent

Vonar að tillögurnar leiði til breytinga

Stjórnlagaráð hefur skilað frá sér drögum að nýrri stjórnarskrá þar sem fjölmargar breytingar eru gerðar á núgildandi stjórnarskrá. Lokaniðurstöðu verður skilað til Alþingis í lok næstu viku.

Í drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá eru 111 greinar en þær eru 80 í núgildandi stjórnarskrá. Töluverðar breytingar eru gerðar á öllum köflum og ákvæðum stjórnarskráinnar.

„Mannréttindakaflinn hefur vaxið dálítið í okkar meðferð og bæst við greinar og ákvæði um náttúru- og auðlindamál. Í Alþingiskaflann er mikil áhersla á styrkingu Alþingis," segir Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs.

Ennfremur segir hún að í utanríkiskafla sé m.a. lögð áhersla á hlutverk Alþingis þegar kemur að stuðningi Íslands við herðanaraðgerðir. Þá hefur dómsmálakaflinn vaxið.

Tvær umræður eru eftir í ráðinu um frumvarpsdrögin og því geta þau enn breyst, en stefnt er að því að skila furmvarpinu til Alþingis á föstudag í næstu viku.

Salvör segir sumar breytingar lúta að umdeildum málum en önnur hafi verið meiri samstaða um. Það er t.d. lagt til að þingmenn víki af þingi ef þeir gegna ráðherraembætti og enginn geti gengt ráðherraembætti lengur en í átta ár. Og það er líka lagðar til breytingar á kjörtíma forseta Íslands. „Hér er gert ráð fyrir að hann sitji mest í þrjú kjörtímabil," segir Salvör.

Þá verði forseti Alþingis einn staðgengill forseta Íslands í forföllum hans. Forseti Alþingis verði að njóta stuðnings tveggja þriðju hluta þingmanna og að forsætisráðherra verði kosinn af meirihluta Alþingis og ný ákvæði eru um þjóðaratkvæðagreiðslur.

„Við skilum af okkur í lok júlí eins og okkur var uppálagt. Síðan kemur í ljós hvað verður um tillögurnar. Vonandi verða þær til breytinga á stjórnarskránni," segir Salvör.




Tengdar fréttir

Stjórnlagaráð leggur fram drög að nýrri stjórnarskrá

Stjórnlagaráð hefur lagt fram fyrstu drög að nýrri stjórnarskrá á grundvelli svokallaðs áfangaskjals. Nú taka við umræður um breytingartillögur á ráðsfundum og má því gera ráð fyrir því að frumvarpið taki nokkrum breytingum næstu daga, en stefnt er að því að verkinu verði skilað til forseta Alþingis þann 29. júlí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×