Innlent

Gömul seglskip og mótorskip fylla Húsavíkurhöfn

Floti gamalla seglskúta og vélskipa frá sex löndum er kominn til Húsavíkur vegna norrænnar strandmenningarhátíðar, sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ýtti formlega úr vör síðdegis. Þessi þriggja mastra skonnorta kom inn til Húsavíkur undir kvöld eftir siglingu frá Danmörku en hún er hópi nærri þrjátíu skipa og báta sem verða til sýnis. Gestur Pálsson tók myndir með frétt Stöðvar 2 en þetta er í fyrsta sinn sem hátíð af þessu tagi er haldin hérlendis.

Tilgangurinn er að halda í heiðri norrænni strandmenningu og kynna núlifandi kynslóðum þau tæki, tól og vinnubrögð sem fyrri kynslóðir notuðu við sjósókn. Má nú sjá í Húsavíkurhöfn gömul skip og báta frá Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi og svo auðvitað frá Íslandi. Á þriðja hundrað útlendinga taka þátt í hátíðinni, sem kallast Sail Húsavík, og komu margir siglandi, flestir á gömlu norsku strandferðaskipi, sem áður var á hinni frægu Hurtigruten-leið, en gegnir hlutverki hótels þessa vikuna á Húsavík.

Hátíðinni lýkur á föstudag og rennur hún þá saman við Mærudaga en Húsvíkingar vonast til að fá yfir tíu þúsund manns í bæinn, að sögn Helgu Viðarsdóttur, markaðsstjóra Norræna hússins, en það stendur að hátíðinni í samvinnu við norræn grasrótarsamtök og heimamenn. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hleypti svo af stokkunum nú síðdegis verkefninu Garðarshólma, sem á að verða miðstöð fræða og menningar í gömlu síldarverksmiðjunni á Húsavík.

Heimasíðu strandmenningarhátíðarinnar er hægt að skoða hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×