Innlent

Löggan mátti ekki senda geðlækni upplýsingar úr málaskrá

Boði Logason skrifar
Lögreglustöðin við Hverfisgötuna
Lögreglustöðin við Hverfisgötuna Mynd úr safni
Persónuvernd hefur úrskurðað að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi verið óheimilt að senda upplýsingar um einstakling úr málaskrá til geðlæknis. Geðlæknirinn átti að meta andlega heilsu mannsins í tengslum við umsókn hans um endurnýjun skotvopnaleyfis.

Maðurinn kvartaði til Persónuverndar í febrúar á þessu ári en þar sagði hann að lögreglan hefði sent upplýsingarnar til geðlæknisins án hans leyfis en hann sótti um að fá vottorð frá lækninum til að afhenda lögreglu. Í kvörtuninni segir maðurinn að hann hafi ekki haft upplýsingar um að útprentaðar upplýsingar úr málaskránni hafi verið afhentar lækninum og hafi ekki verið búinn að veita samþykki sitt fyrir því.

Þá segir hann að honum hafi verið synjað að vita til hvaða mála lögreglan vísaði til í málatilbúnaði sínum og lögfræðingur hjá lögreglunni hafi ekki viljað svara spurningum um hvað málið snýst. Þegar hann ætlaði að fá sjálfur útprentun úr málaskránni var honum tjáð að það væri ekki hægt þar sem það bryti í bága við lög.

Í bréfu lögreglunnar til Persónuverndar segir að nokkur tilvik hafi verið skráð í málaskránna þar sem maðurinn hafði misst stjórn á skapi sínu með þeim hætti að lögregla hafði verið kölluð til.

Lögreglan taldi að það væri í lagi að senda upplýsingarnar og segir meðal annars í bréfi þeirra til persónuverndar: „Beiðni kvartanda til viðkomandi læknis um að rita vottorðið gat því ekki talist annað en samþykki hans fyrir því að veita honum aðgang að þeim gögnum sem átti að hafa til hliðsjónar við mat á andlegu heilbrigði hans og ljóst er að læknirinn hafði samþykki kvartanda fyrir því að afla þeirra."

Niðurstaða Persónuverndar er hinsvegar sú að þó svo að maðurinn hafi beðið geðlækninn um að gefa samþykki um andlega heilsu sína þá þýði það ekki að það megi senda gögnin enda þarf einstaklingur að hafa samþykkt miðlun viðkvæmra upplýsinga með því að gefa frá sér sérstaka yfirlýsingu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×