Erlent

Sækjast eftir að myrða háttsetta

Óli Tynes skrifar
David Petraeus, hershöfðingi.
David Petraeus, hershöfðingi.
Náinn ráðgjafi og vinur Hamids Karzai forseta Afganistans hefur verið myrtur. Tveir byssumenn með sprengjubelti vafin um sig ruddudst inn á heimili ráðgjafans og skutu hann til bana. Þeir myrtu einnig stjórnmálamann sem var staddur í heimsókn hjá honum. Lögreglumaður skaut annan árásarmanninn til bana en hinn sprengdi sig í loft upp. Það er skammt stórra högga hjá forsetanum þessa dagana því aðeins eru nokkrir dagar síðan bróðir hans var myrtur.

 

Þetta er ekki talin nein tilviljun heldur séu talibanar farnir að velja sér hæst settu skotmörk sem þeir geta náð til. Á sama tíma er afganski herinn byrjaður að taka við öryggisgæslu á mörgum sviðum af Bandaríkjamönnum og öðrum þjóðum sem sent hafa herlið til landsins. Um 150 þúsund erlendir hermenn eru í Afganistan og eru langflestir þeirra frá Bandaríkjunum. Þeim verður fækkað á næstu misserum og stefnt er að því að allir verði farnir árið 2014.



 

David Petraeus yfirhershöfðingi Bandaríkjamanna í Afganistan er nú á förum þaðan og mun annar foringi stýra fækkun bandarískra hermanna. Petraeus mun taka við stjórn leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×