Erlent

Gæti fengið tólf ára fangelsi

Réttarhöld hefjast yfir Berlusconi í dag í tveimur málum. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsisdóm. nordicphotos/afp
Réttarhöld hefjast yfir Berlusconi í dag í tveimur málum. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsisdóm. nordicphotos/afp
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, á að mæta fyrir rétti í dag. Hann hefur þó tilkynnt að hann komist ekki þar sem hann mun funda með Giorgio Napolitano, forseta landsins.

Berlusconi sætir ákærum fyrir mútur og að hafa borgað 17 ára stúlku fyrir kynlíf. Réttarhöld hefjast í báðum þessum málum í dag.

Hann er sakaður um að hafa borgað fyrrum lögmanni sínum, David Mills, fyrir að bera ljúgvitni. Þá er hann ákærður fyrir að hafa borgað marokkósku stúlkunni Karim El Mahroug ítrekað fyrir kynmök í glæsihúsi sínu. Að auki er hann grunaður um að hafa misbeitt valdi sínu með því að leysa hana úr varðhaldi lögreglu þegar hún var handtekin fyrir þjófnað í maí 2010. Verði hann fundinn sekur um misbeitinguna getur hann fengið allt að 12 ára dóm.

Lögmenn Berlusconi hafa dregið vald réttarins í efa og sagt að sérstakan ráðherrarétt þurfti til að meta hvort misbeiting valds hafi átt sér stað. Þá hafa þeir farið fram á að réttarhöldin verði færð nær heimili Berlusconi, en hann býr við góðan kost í Arcore, fyrir utan Milan.

Fjöldi vitna sem býr í Sviss mun bera vitnisburð í dag með aðstoð fjarfundarbúnaðar.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×