Innlent

Ungt fólk trúir því að neysla kannabis sé skaðlaus

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Kannabisneysla meðal íslenskra ungmenna hefur færst í aukana og þá sérstaklega neysla á marijúana.

Talið er að aukninguna megi að mestu rekja til breyttra viðhorfa, en sú trú að marijúana sé skaðlítið, eða jafnvel skaðlaust virðist vera ríkjandi meðal ungs fólks. Þá hefur ræktun kannabisefna hér á landi tekið gífurlegan kipp á síðustu misserum og eru dæmi um að unglingar rækti sjálfir í heimahúsum.

Tuttugu og tvö félagssamtök tóku sig saman um að bregðast við þessum breytingum og hleyptu af stokkunum verkefninu Bara gras? með málþingi um skaðsemi kannabisefna í dag. Þar kom fram að tæplega helmingur allra framhaldsskólapilta eldri en átján ára hefur einhverntímann prófað að reykja maríjúana og þriðjungur þeirra hefur reykt efnið þrisvar sinnum eða oftar. Íslenskar framhaldsskólastúlkur eru ólíklegri en drengir til þess að neyta efnisins sem og yngri nemendur.

Þegar kannabisneysla íslenskra ungmenna á aldrinum 16 til 19 ára er borin saman við neyslu jafnaldra þeirra á Norðurlöndunum má sjá að full ástæða er til þess að hafa áhyggjur af þróun mála. Hvergi var neysla marijúana meiri en á Íslandi.

Árni Einarsson, framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna, segir ástæðu til að hafa áhyggjur aukningu mairjúananeyslu unglinga.

„Það er náið samband milli neyslu og vandans sem við erum að fást við. Allt sem bendir til aukningu á neyslu eða fyrirboði um slíkt, munum við taka því alvarlega og munum bregðast við því," segir Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×