Lífið

Vaxandi vinsældir fjárhundsins í Ameríku

vinsæll Íslenski fjárhundurinn er vinsæll í Bandaríkjunum.
vinsæll Íslenski fjárhundurinn er vinsæll í Bandaríkjunum.
„Við fáum fjölmargar fyrirspurnir um íslenska fjárhundinn – eiginlega of margar, þar sem við teljum að hundurinn sé ekki fyrir alla,“ segir Maggy Pease, forsvarsmaður ræktunarsambands íslenska fjárhundsins í Bandaríkjunum.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu hefur íslenski fjárhundurinn verið frumsýndur á sýningum Kennel-klúbbsins, sem er sá stærsti í Bandaríkjunum. Um 200 meðlimir eru í ræktunarsambandi íslenska fjárhundsins þar í landi og eftirspurnin hefur aukist stöðugt.

„Áhuginn á hundinum er orðinn frekar mikill eftir að hann var samþykktur í Kennel-klúbbinn í júní á síðasta ári,“ segir Maggy. „Áhuginn hefur aukist stöðugt. Við höfum fengið fjölmargar fyrirspurnir um hundinn.“

Yfir 600 íslenskir fjárhundar eru á skrá ræktunarsambandsins í Bandaríkjunum og hundurinn er nú í 82. sæti af 162 yfir vinsælustu kyn Kennel-klúbbsins.

„Alls kyns fólk á íslenska fjárhundinn, en við viljum að fólk sem skilur kynið eignist hundinn,“ segir Maggy, spurð hvers konar fólk hafi áhuga á íslenska fjárhundinum.

„Það er mikil vinna að eiga hundinn. Hann þarf mikla hreyfingu og gott samband við eigendurna. Borgarlífið á ekki við hann, þótt margir hafi náð góðum árangri með hann í úthverfum. Okkur finnst skemmtilegast að sjá hundinn á sveitabæjum þar sem hann getur tekið þátt í daglegum verkum eins og hann hefur gert á Íslandi í gegnum tíðina.“- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.