Innlent

Öryggistilfinning Dalamanna dofnar

Búðardalur Áfram verður lögregluvarðstöð í Búðardal en hún er mannlaus því eini lögregluþjóninn er í veikindaleyfi.Fréttablaðið/Pjetur
Búðardalur Áfram verður lögregluvarðstöð í Búðardal en hún er mannlaus því eini lögregluþjóninn er í veikindaleyfi.Fréttablaðið/Pjetur
„Fólk upplifir nú mikið öryggisleysi eftir að hér hefur verið lögreglubíll á staðnum frá árinu 1966,“ segir Baldvin Guðmundsson, íbúi í Búðardal, en þaðan hvarf eini lögreglubíllinn í gær til Borgarness vegna hagræðingar.

Um miðjan febrúar voru Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra afhentir undirskriftalistar með tæplega 1.400 nöfnum þar sem áformunum var mótmælt. Einn forvígismanna söfnunarinnar, Sigurður Sigurbjörnsson, sagði að bágur fjárhagur sýslumannsembættisins í Borgarnesi mætti „ekki bitna á almennum mannréttindum og öryggistilfinningu Dalamanna og nærsveitunga“.

Fulltrúar sveitarstjórnarinnar funduðu einnig með ráðherranum. Þeir sögðu að á fundinum hefði komið fram að engar ákvarðanir hefðu enn verið teknar um málið. Sjónarmið Dalabyggðar yrðu skoðuð áður en lengra yrði haldið.

„Ögmundur virðist bara hafa sett upp eitthvert pókerfés á þessum fundi og nú er lögreglubílinn farinn til Borgarness,“ segir Baldvin, sem kveðst áhyggjufullur fyrir hönd byggðarlagsins, ekki í síst í ljósi vaxandi umferðar í kjölfar opnunar heilsársvegar norður um Arnkötludal. Hann kveðst tala af reynslu um aðstæður á svæðinu enda hafi hann starfað sem sjúkraflutningamaður á árum áður. „Þeir benda á að það séu áttatíu kílómetrar úr Borgarnesi í Búðardal en ef þarf að fara út á Skarðsströnd þá eru það orðnir 150 kílómetrar. Það er einfaldlega allt of langt.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×