Innlent

Vill hafa vaðið fyrir neðan sig

Goðafoss á strandstað Skipið er þessa dagana á leið til hafnar í Danmörku, en myndin er tekin á strandstað við Noreg þegar hreinsunaraðgerðir voru að hefjast.
nordicphotos/AFP
Goðafoss á strandstað Skipið er þessa dagana á leið til hafnar í Danmörku, en myndin er tekin á strandstað við Noreg þegar hreinsunaraðgerðir voru að hefjast. nordicphotos/AFP
Norska stjórnin hefur ákveðið að veita norsku strandgæslunni 110 milljónir norskra króna til þess að standa straum af kostnaði, sem gæti orðið vegna hreinsunar eftir strand Goðafoss fyrir hálfum mánuði.

Þetta eru tveir milljarðar íslenskra króna, en Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir engar líkur á að þetta fé verði notað til þessara verka. „Við höfum fengið þær skýringar að norsk stjórnvöld hafi lagt svona ríflega í sjóð, sem er eyrnamerktur þessu verkefni. Sá peningur verður notaður í þetta ef til þess kemur, en okkar tryggingafélag hefur hins vegar fengið sérfræðinga til þess að hreinsa þetta upp."

Tryggingafélag Eimskips hefur fengið alþjóðlega olíuhreinsunarfélagið ITOPF til þess að sjá um hreinsunarstörfin, en þetta er félag sem er að stórum hluta í eigu skipafélaga og hefur sérhæft sig í að hreinsa upp eftir olíuleka.

Ólafur reiknar með að ITOPF ljúki verkinu með sóma, svo norska ríkið þurfi varla að leggja út í mikinn kostnað. „Norðmenn vilja greinilega vera bæði með belti og axlabönd í svona málum," segir Ólafur.

„Í þessum efnum getum við tekið okkur þá til fyrirmyndar, en þeir eru greinilega líka eitthvað betur stæðir en við."

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×