Innlent

Virði eigna bankans jókst um 135 milljarða

Staðan kynnt Frá kynningarfundi fyrir kröfuhafa í desemberbyrjun. Fréttablaðið/GVA
Staðan kynnt Frá kynningarfundi fyrir kröfuhafa í desemberbyrjun. Fréttablaðið/GVA
Mat á verði eigna Kaupþings banka jókst um 135 milljarða króna á árinu 2010. Hækkunin nemur 17 prósentum. „Þá hefur verið leiðrétt fyrir áhrifum vegna 12 prósenta styrkingar á gengi krónunnar á tímabilinu," segir í tilkynningu skilanefndar bankans.

Óveðsettar eignir bankans eru metnar á 817 milljarða króna, að því er fram kemur í fjárhagsupplýsingum í skýrslu fyrir kröfuhafa bankans.

Fram kemur að stór hluti lánasafns Kaupþings hafi verið endurskipulagður á árunum 2009 og 2010. „Þegar leiðrétt hefur verið fyrir gengisáhrifum nemur raunaukning á virði eigna á árinu 2010 alls 135 milljörðum króna, en til samanburðar nam raunverðmætaaukning 129 milljörðum króna á árinu 2009. Án leiðréttingar fyrir gengisáhrifum nam verðhækkun eigna 48 milljörðum króna á árinu 2010 og 214 milljörðum króna á árinu 2009."

Þá kemur fram að þóknanatekjur af starfsemi skilanefndar á árinu 2010 hafi numið um 1,3 milljörðum króna, en þær standa straum af rekstri eignasafnsins á Íslandi.

Heildarrekstrarkostnaður bankans á árinu 2010 var 6,5 milljarðar króna sem er 0,29 prósent af nafnvirði heildareigna sem námu 2.251 milljarði króna við árslok 2010. Stærstur hluti kostnaðarins, eða um 60 prósent, er til kominn vegna aðkeyptrar sérfræðiráðgjafar sem nam tæplega fjórum milljörðum króna.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×